Við fengum hóp góðra vina í heimsókn í fyrrakvöld. Ég hafði nú ætlað mér að elda eitthvað frambærilegt en eldavélin okkar hérna á Kvisthaganum bilaði og við fengum ekki viðgerð fyrr en í gær. Það var því gripið til gömlu góðu pizzunnar og var þeim öllum gerð góð skil þótt ég skammaðist mín nú dulítið fyrir það sem á borðum var. Mér líkar ekki að bjóða til matar og geta svo ekki séð um þetta sjálf. Rétt um það bil sem hópurinn var að kveðja var ákveðið að þeir sem áttu heimangengt daginn eftir myndu príla Esjuna. Við Halli höfum aldrei gengið á Reykjavíkurfjallið áður og var það eitt af markmiðum sumarsins að komast upp. Þegar á bílastæðin við Mógilsá kom var lágskýjað og ekkert voðalega spennandi að líta upp en við létum okkur hafa það og "röltum" af stað. Þegar ofar dróg fór hann að létta til og þegar tindinum var náð byrjaði hann að rífa all verulega af sér og svo fór að útsýnið var með því fegurra sem gerist með tindrandi og glitrandi blá sundin og eyjar og sker og húsþök borgarinnar uppljómuð í sumarsólinni. Þvílík fegurð. Kyrrðin alger, skoppandi tær lækurinn, hofsóleyjar, holtasóleyjar, lúpína, grjót, birki, ilmur eftir rigningu næturinnar, stelkur og spói, lóa og kjói og hópur góðra vina með Siríus súkkulaði og íslenskt vatn.
Þar sem tvívítt landslagið í Minnesota er lítt til þess fallið að æfa fjallgöngu þá var líkaminn gamli ekki í formi að takast á við mishæðir og fjallapríl og var niðurferðin erfið lærvöðvunum. Ég er með strengi í dag í vöðvum sem ekki hafa verið notaðir lengi en verða vonandi með jöfnu millibili í sumar. Það er á dagskránni að takast á við nokkra tinda hérna í nágrenninu.
miðvikudagur, júlí 06, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli