miðvikudagur, júlí 27, 2005
Klukkan er rúmlega sex að morgni, sólin skín hér innum um austurgluggana, sjórinn við Ægissíðuna er spegilsléttur, kuldaþokan er að gefa sig og morgunfegurðin í algleymingi. Fuglarnir syngja sinn morgunsöng því hinir alræmdu vesturbæjarkettir eru eflaust sofandi ennþá, mannfólkið er ekki komið á stjá, nema svona örfáir morgunhanar eins og ég, og kyrrðin er alger. Í gær spilaði ég aftur golf á Hvaleyrinni í undursamlegu veðri. Fyrri níu sem eru í hrauninu voru yndislegar, kyrrt, sól og Snæfellsjökullinn í seilingarfjarlægð. Svo ákvað vindurinn að gefa í og það var orðið svo hvasst um miðjar seinni níu að ég var hætt að heyra í eigin hugsunum, sem er alveg agætt, þær eru ekki alltaf að segja mér neitt merkilegt, allra síst á golfvelli það sem mér hættir til að greina allt í smátriðum í staðinn fyrir að bara "gera" hlutina. Kristín kemur í dag úr Evrópudvölinni, verður hjá okkur fram á þriðjudag þegar hún heldur "heim" á leið. Við mæðgur ætlum að eyða Verslunarmannahelginni (þetta er langt orð!) á Lönguklöpp og leggjum væntanlega af stað seint annað kvöld þegar umferðin fer að róast. Þetta hljómar eins og mjög svo venjulegt íslenskt sumarlíf!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Sæl Kata mín.
Það væri nú gaman ef þú myndir stinga inn nefinu í Vinaminni svo við sjáum hvernig þú lítur út... Þarftu ekki hvort sem er að koma við í Hamragerði? Valur er á vakt alla helgina en svo erum við hjónin komin í sumarfrí, jibbý!
P.S. Vaknarðu alltaf svona snemma eða eru þetta hinar íslensku sumarnætur sem hafa þessi áhrif?
Skrifa ummæli