miðvikudagur, mars 02, 2005

Dansiball

Við hjónin fórum á salsa dansleik á laugardagskvöldið var. Það var óskaplega gaman. Þetta var haldið heima hjá vinum okkar sem eru frá Puerto Rico. Þar voru 60 manns og all flestir frá mið- og suður Ameríku og því salsa dans þeim flestum í blóð borinn, enda var dansað og skemmt sér fram á nótt. Þetta var mjög óvenjulegt partý hér í Rochester þar sem öll heimboð og veislur einkennast af tiltölulega rólegum, yfirveguðum samræðum, afar siviliserað og kurteist. Nema þegar við erum á staðnum, þá er mjög oft grínast og strítt, sagðar gamansögur, jafnvel kvartað yfir hávaða á næstu borðum. Sérstaklega þegar Halli er með góðum vinum, þá er allt á útopnu, hávaði og læti og hleigið óskaplega. Í boðskortinu var fólk varað við að þetta yrði ekki afslappað boð, tónlistin yrði á hæsta, það yrði mikið dansað og drukkið. Enda voru þau hjónin með þrjá atvinnu barþjóna sem ekki áttu kyrra stund allt kvöldið. Það gekk eftir, suður-amerísk danstónlist á fullu allt kvöldið og við dönsuðum eins og við ættum lífið að leysa. það er ekki endilega víst að okkar dansaðferð geti flokkast undir salsadans en við reyndum og okkur var kennt, en það þarf meira en nokkurra mínútna kennslustund til að kenna gömlum hundum að sitja svo við reyndum að gera bara eins og hinir. Karólína fór með móður sína að versla fyrr um daginn, því eftir skoðun í fataskápnum þá komst hún að þeirri niðurstöðu að þar var ekkert sem gæti flokkast undir salsadansföt, "not even close", svo ég endaði með svart og hvítt doppótt pils úr þunnu silki, eplagrænan bol og svo háhæla bandaskó í láni úr skápnum hennar.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

þetta hefði ég viljað sjá. Þá hefði lund mín lést. Kannski við fáum námskeið í næstu heimsókn (þe ykkar til Ísl ;) Í hverju var Haraldur? Er hans attire í salsa stíl (:()--

Katrin Frimannsdottir sagði...

Það er þannig með karlmenn að þeir komast upp með að klæða sig nánast eins alla daga, allavega eru varíasjónirnar mun minni en hjá kvenþjóðinni. Þetta lögmál gildir jafnvel enn betur í suður-Ameríkunni þar sem konur eru skrautlegar og njóta þess að vera þannig. Halli var mjög "venjulegur" til fara, ekkert spennandi að segja frá þar.