mánudagur, desember 19, 2005

Vinaminnishjonin

Morgunmaturinn í dag er betri en gengur og gerist hér á bæ; kaffi og ristað brauð með reyktum silungi, veiddum af höfðingjanum og húsbóndanum í Vinaminni. Himneskt! Hann laumaði að okkur mörgum fínum flökum af þessum líka silungi sem við eigum eftir að njóta næstu vikurnar, ekki það að okkur finnst nú að hann eigi að koma með þetta til Ameríku í farteskinu sjálfur, enda hafði hann boðað komu sína í haust en við urðum allavega ekki vör við að hann kæmi, kannski var hann svona lítill fyrirferðar eða við orðin svona gleymin og eftirtektarlaus að við munum ekki eftir komu hans hingað. Hvernig sem svo silungurinn komst alla leið hingað til Rochester þá er hann með því betra fæði sem gerist. Þau heiðurshjónin buðu okkur í kaffi....þ.e.a.s. húsbóndinn bauð og boðaði konu sína á svæðið, enda urðum við þess heiðurs aðnjótandi að fljúga með honum norður yfir heiðar svo hann átti ekki annar kosta völ en að bjóða okkur í kaffi. Merkilegt þetta með vinskapinn, það er alveg sama hversu langt líður á milli spjalls yfir kaffibolla, þráðurinn er alltaf tekinn upp aftur þar sem frá var horfið.

Engin ummæli: