fimmtudagur, október 30, 2008

Það er eitt og annað sem ég ekki skil í íslensku samfélagi. Hvorki fyrir né eftir hrun. Hvers vegna í veröldinni hækkaði Seðlabankinn stýrivexti? Ég skildi þetta svona nokkurnvegin fyrir hrun, því þá var verið að reyna að stoppa neysluna, en við núverandi aðstæður skil ég þetta bara alls ekki. Ég held að svarið sé til þess að halda gjaldeyri innanlands. Sú rök halda bara ekki vatni við núverandi aðstæður þar sem fólk í hundraðatali missir vinnuna á hverjum degi og margir af þeim sem hafa vinnu hafa lækkað all verulega í launum. Það eru engir peningar til að eyða. Ef það á að ná þjóðarbatteríinu af stað aftur þá þarf að lækka vext. Það getur enginn sem stendur í framkvæmdum tekið lán undir þessum kringumstæðum og þar með stoppast allt. Þetta kyrkir allt athafnalíf, þ.e. þá sem standa í framkvæmdum. Jú, það þarf að viða að sér erlendis frá en það verður líka að halda atvinnu fólks gangandi. Öðruvísi kemst ekki skútan af strandstað. Það verður því að gera greinarmun á neyslulánum, atvinnulánum, og svo aðstoð til þeirra sem ekki geta staðið í skilum. Þetta er einhver alvitlausasta ákvörðun sem ég hef heyrt um lengi.

Ég hef mikið verið að velta fyrir mér hver á að sjá um rannsókn á ferlinu sem leiddi til hrunsins. Bogi og Valtýr eiga syni sem voru á fullu í útrásinni. Svona er þetta litla íslenska samfélag. Það þekkja allir alla. Meira að segja ég er málkunnug Sigga Valtýs og ég þekki mömmu hans og stjúpa vel. Ég get því ekki séð að íslenskt fyrirtæki, eða íslenska ríkið í þessu tilfelli, hafi það traust sem þarf til að fá niðurstöður sem einhverju fá breytt. Þetta þekki ég afskaplega vel, það hefur ekkert uppá sig fyrir mig að kynna niðurstöður úttekta ef ég er rúin trausti. Ég byggi allt mitt á trausti viðskiptavinanna. Það traust byggi ég upp frá fyrstu mínútu og því held ég áfram löngu eftir að verkefninu er lokið. Ef niðurstöðunum er ekki treystandi þá er betur heima setið en af stað farið. Þetta er eitt af grundvallaratriðum mats og úttekta.

Það er best að hætta hérna og snúa sér að doktorsritgerð í matsfræðum.

Engin ummæli: