sunnudagur, október 26, 2008

Nánast síðan við fluttum til útlanda fyrir rúmu 21 ári síðan höfum við tekið að okkur það hlutverk að vera fulltrúar Íslands sem kunna söguna, Íslendingasögurnar, og allt annað sem að Íslandi kemur. Þetta er rétt eins og aðrir Íslendingar sem erlendis hafa búið. 

Síðustu vikurnar hafa spurningarnar breyst, fólk okkur nákomið kann mikið um ófarir Íslands og hringja í okkur og senda tölvupóst í tíma og ótíma, til að ræða málin og spyrja okkur spjörunum úr hvað hafi gerst. Við erum stoppuð á götu, í ræktinni, og vinnunni af lítt kunnugu eða algerlega ókunnugu fólki sem veit að við erum Íslendingar. Börnin okkar eru spurð við ólíklegustu tækifæri. Allir eru umhyggjusamir og spyrja um fjölskylduna heima og svo okkar eigin mál. 

Það hefur verið erfitt að svara öllum þessum spurningum og ekki verður hjá því litið að ég reyni að verja landið eins og ég get. Kannski fegra ég ástandið, ég veit það ekki, en ég reyni að skýra út ferlið, hvernig landið var fyrir og eftir EES, hvað breyttist og hvað ekki, hvernig litla íslenska krónan var ekki nógu stór fyrir stóru viðskiptin á alþjóðamarkaði, og hvernig Seðlabankanum tókst ekki að stjórna óstýrilátum Íslendingum í blússandi útrás. Þar sem ég er matsfræðingur þá tek ég oft þann pólinn í hæðina að skýra þetta útfrá forsendum mats, úttekta og eftirlits, þannig finnst mér ég komast að kjarna málsins. En ég bara veit ekki nóg um fjármál og efnahag þjóðarinnar til að gefa haldgóða lýsingu á atburðarásinni eða orsakasamhengi. 

Eitt er alveg öruggt, það er alveg nauðsynlegt að fylgjast vel með, hversu mikið sem það tekur annars á sálartetrið.

Engin ummæli: