fimmtudagur, nóvember 02, 2006
Einhverra hluta vegna hefur mér verið mikið hugsað til hennar Siggu ömmu minnar og hans Gumma afa míns að undanförnu. Hún lést haustið 1985 eftir að hafa fengið heilablóðfall tæpur tveimur árum áður og hann lést úr sorg eftir að amma fékk heilablóðfallið og þurfti að vera á spítalanum það sem eftir var. Hún var matreiðslukona allt sitt líf, sá um heimili fína fólksins í Reykjavík, smurði skreyttar snittur á Brauðbúðinni Borg, bakaði heimsins besta flatbrauð, tók slátur fram á síðasta haustið sitt, eldaði ofaní og sá um hann Gumma afa, og svo okkur systkinin þegar á þurfti að halda. Þau voru verkamenn allt sitt líf, afi sjómaður fyrir vestan lengi vel en eftir að þau fluttu Suður þá fór hann að vinna á Laugardalsvellinum. Hann var afburða snyrtimenni og þoldi ekki drasl og illa umgengni. Fór í sund flesta daga, á skauta eins oft og hann gat, stundaði jóga, fór á skíði og gekk allt sem hann fór. Hann leit á það sem sitt samfélagslega hlutverk að sjá til þess að hvergi væri drasl að sjá, laun voru aukaatriði en snyrtimennska aðalatriði. Þau eignuðust aldrei bíl. Þau voru alltaf svo fín í tauinu, amma átti bæði upphlut og peysuföt og fádæma fallegan möttul sem er núna í minni eigu og klæddi sig upp oft og iðulega. Amma fór aldrei svo útúr húsi að hún væri ekki búin að setja á sig varalit, hatt og fara í fína kápu. Hún var með staurfót frá því hún ung fékk berkla í hné, en gömlu hjónin bjuggu á fjórðu hæð í blokk síðustu árin og aldrei kvartaði hún yfir stigunum, bar með sér aðföngin alla leið upp, stundum nokkrar ferðir. Þau voru afar nægjusöm og glöddust yfir litlu. Það mátti ekki trufla afa ef verið var að sýna skauta í sjónvarpinu og þá var oft lokað inní stofu svo hann fengi að vera í friði, sérstaklega ef vinkonur eða systur ömmu voru í heimsókn. Þá þótti honum nóg um hávaðann. Nokkrum árum fyrir andlátið krafðist afi þess að það yrði sett parkett á alla íbúðina því hann hafði þá skoðun að það væri svo mikill óþrifnaður í teppum. Þetta var löngu fyrir tísku parketts en gamli maðurinn var með þetta á hreinu. Það er margt annað sem hann sagði mér sem taldist til vitleysu í mínu höfði lengi vel en hefur með tíð og tíma verið sannað á vísindalegan hátt að var hárrétt: þú átt að borða mikinn fisk því þá verður þú svo gáfuð, þú skalt smyrja júgursmyrsl á fætur og hendur þegar kalt er, rúsínukökur með haframjöli eru meinhollar, þú þarft að passa uppá að vera sterk og liðug allt þitt líf, þannig meiðist þú ekki. Hann afi minn var ekki rugludallur!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli