mánudagur, júní 26, 2006
Þessa vikuna þarf ég að undirbúa brottför til Íslands. Ekki að það sé svo mikið verk, við höfum áður farið til Íslands :o ! og það í lengri ferð en þessar litlu tvær vikur sem ég verð í burtu í þetta skiptið. Halli er í Portúgal og við hittumst á Íslandi á sunnudaginn en Karólína og Becky vinkona hennar ferðast til Íslands með mér. Ég er farin að hlakka mikið til Íslandsferðarinnar, það er einhver Íslandslöngun í mér núna, ekki heimþrá en löngun eftir Lönguklöpp og fjölskyldunni. Sumarið hefur verið yndislegt fram að þessu og garðurinn minn í blóma og allt svo fallegt úti. Við Karólína vorum að tala um það í gærkveldi þegar við vorum að keyra hingað heim, innan hverfisins, að okkur þætti svo gaman að keyra hingað, og ekki er það síðra að ganga, það er svo falleg leiðin hingað heim; upp krókóttan, skógi vaxinn veg, kvöldsólin sendi geisla sína í gegnum trjágreinarnar og myndar röndótta, gulgræna birtu með rauðu ívafi, fuglarnir á fleygiferð; eldrauðir kardínálar, fagurbláir blue jays, skærgular finkur, appelsínugulir oreoles, og svo voru dádýrin og villtir kalkúnar á vappi og náttúrulega allir íkornarnir. Þetta er svo fallegt, og svo komum við á Lönguklöpp í næstu viku og sjáum fegurð sem er engu lík en af allt annarri ætt en fegurðin hér.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli