sunnudagur, nóvember 02, 2008

Klukkunni var breytt í nótt. Við græddum einn klukkutíma. Það er allt eitthvað svo öfugsnúið dagana á eftir klukkubreytingum. Klukkan er rétt rúmlega fjögur og sólin er að hverfa bakvið trén og mér finnst eins og ég eigi að fara að huga að kvöldmat en það er enn langt í hann. Annars var 22 stiga hiti í dag og við fórum í langan göngutúr og svo fór ég út og þvoði gluggana á neðri hæðinni að utan. Við vöfðum eplatrén og hlyninn með striga til að verja fyrir kali og svo blessuðum dádýrunum. 

Svona á veðrið að vera fram eftir vikunni en svo koma skörp kuldaskil í miðri viku og kannski snjóar á fimmtudaginn.  

Annika litla var hjá okkur í nótt því mamma hennar og pabbi fóru á tónleika í Minneapolis. Það er svo gaman að hafa svona lítið stýri í heimsókn. Hún er geðgóð og ljúf í umgengni og hún lyftir upp lífinu hérna hjá okkur. Hún var hérna fram eftir morgni þegar Halli fór að fljúga og við vorum hér í góðu yfirlæti. Nú er læknisvottorðið hans Halla loksins komið í gengum kerfið hjá FAA og hann fer að fljúga aleinn í næstu viku. 

Lífið mjakast því áfram sinn vanagang með smá skrefum framávið. 

Fimm vikur í vörn


Engin ummæli: