föstudagur, ágúst 11, 2006
Við erum Volkswagen fjölskylda. Eigum bara bíla frá þeim, allir fjórir. En bíllinn sem stelpurnar hafa haft síðastliðin þrjú ár er nú farinn. Þetta var bjalla, eiturgræn og fín, dísel og beinskipt. Kristín ætlar að taka bílinn til Princeton og bjallan er ekki til þess fallin að frakta margt fólk og fullt af farangri. Allt þetta tilheyrir hlutverki "upperclassman", keyra yngri stelpurnar í liðinu og sendast í búðir. Þess vegna var ráðist í að skipta um bíl. Þetta gekk nú ágætlega framanaf en svo þegar komið var að því að taka endanlega ákvörðun þá rákust þau feðginin all þyrmilega á og hér var flugeldasýning í nokkra daga. Kristín og Halli eru alveg eins skapi farin; stjórnsöm, ákveðin, skoðanahvöss, og láta allt þetta í ljósi, hann með háttalagi og líkamsmáli en hún með orðum. Þvílíkt og annað eins! Svo gekk þetta nú allt um síðir, þau orðin sátt og hinir mestu mátar eins og oftast, og það er annar Passat kominn hingað heim. Þær sakna nú bjöllunnar, hann var næstum því eins og hluti af útliti Karólínu en þessi er betri fyrir það sem nota á hann í og því eru allir nokkuð sáttir. Passatinn er ekki eins töff og flottur, svolítið virðulegur, svolítið of virðulegur fyrir mínar dætur en stundum verður að gefa frá sér stílinn og láta hagkvæmnina ráða.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli