mánudagur, febrúar 13, 2006

Ég var að tala við hana Kristínu mína í Princeton, New Jersey. Þar er allt á kafi í snjó, og hún meinar á bólakafi. Hún hefur oft séð mikinn snjó en þetta var ógnin öll sem féll á tiltölulega stuttum tíma. Henni leiðist þetta nú ekki, það er stutt í ærslafullan Íslendinginn í henni þar sem snjór er ekki vandræði heldur tilefni til skemmtunar og gleði. Fyrir 30 árum síðan þá tóku vinir okkar sig til, nú til dags eru þetta virðulegir læknar, skógfræðingar og annað þ.u.l., og byggðu kentár eftir snjókomu dagsins fyrir utan heimavistina. Snjórinn var fullkominn sem byggingarefni, blautur, þungur og þéttur enda rétt undir frostmarki. Skógfræðingurinn var listamaðurinn og hinir vinnudýr sem rúlluðu upp snjóboltum og byggðu hálfgerðan kassa til að vinna með. Þetta var náttúrulega ekki í smámynd heldur stórtækt eins og hans er von og vísa. Í minningunni var höfuð kentársins vel yfir tveim metrum á hæð. Afturendinn var eins og lög gera ráð fyrir eins og á hesti, dýr sem skógfræðingurinn þekkti vel en Ærir síður í þá tíð. Framhlutinn var að sjálfsögðu mannsmynd og var einn ágætur vinur (þá kærasti, nú eiginmaður) hafður sem fyrirmynd. Myndir voru teknar en þær eru dulítið gráar vegna birtuleysis, en þær eru í albúminu gamla á sínum stað. Þar má líta þiskipaútgerðaritarann við höfuð dýrsins, skógfræðinginn á baki og skólastjórann suður með sjó að fylgjast með. Eins og oft gerist á Íslandinu þá kom þíða um nóttina, svo rigning og það var lítið eftir af ótrúlega flottum kentár þegar hringt var í tíma morguninn eftir.

Engin ummæli: