föstudagur, febrúar 17, 2006
Hversdagsverk
Þá er hann hættur að snjóa en við fengum eina 20-25 sentímetra í gær, og kuldaboli mættur í staðinn. Það er 20 stiga frost nú í morgunsárið en hann hlýnar eitthvað yfir daginn. Það sem verra er að það er skafrenningur og það er ótrúlega kalt á opnum svæðum. Þegar ég var að moka frá í gær þá hélt ég að ég myndi fá naglakul en það bjargaðist þegar ég fór að moka frá með skóflunni, þá hlýnaði mér á fingrunum all verulega. Það er erfitt að nota snjóblásara þegar snjórinn er léttur og að auki er vindur. Það þarf að haga "seglum" eftir vindi til að fá ekki allt í andlitið eða að blása ekki snjónum aftur yfir unnið svæði, ég fékk þó nokkrar gusur yfir mig, ofaní háls, bakvið gleraugun, inní nasirnar... það er ekki þægilegt en í nútíma fatnaði með kraga uppað eyrum, lokað fyrir við úlnliði, smellt fyrir að innanverðu þannig að ekki blási uppá bak þá er mér nú engin vorkunn enda er ég ekkert að vorkenna sjálfri mér. Mér finnst ekkert leiðinlegt að moka frá, það er eitthvað notalegt við að hafa sjálfsbjararviðleitnina í lagi og þurfa ekki að leita til annarra með allra handa aðgerðir og viðgerðir. Reyndar tókst mér ekki að losa um stíflu í eldhúsvaskanum í fyrradag þrátt fyrir allra handa vopn og góða tlburði og því fékk ég pípara sem mætti með allra handa dælur á staðinn en þá tók ekki betra við, uppþvottavélin hafði stíflast eða gegnblotnað og nú vill hún ekki ganga þrátt fyrir góða tilburði þar líka svo nú kemur uppþvottavélaviðgerðamaðurinn í dag.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli