miðvikudagur, apríl 12, 2006

Islandið

Íslands- og Evrópuferð minni að ljúka að sinni, ég yfirgef Ísland á morgun rétt passlega þegar flestir Íslendingar fara í langþráð páskafrí. Ég er farin að hlakka mikið til að komast til minna heima í faðm fjölskyldunnar. Mikið voðalega sakna ég þeirra. Ég er þó búin að hafa það afskaðlega gott. Það var vitlaust veður fyrir norðan í síðustu viku og ég lokaðist inni á Lönguklöpp tvo daga í röð og eftir að hafa verið mokuð út tvisvar þá ákvað ég að flytja fram á Hrafnagil. Það var svo sem ekkert alslæmt að vera föst inni, ég var með mikið af lesefni sem ég þurfti að komast yfir og gerði það með sóma og sann. Ég er þó ekki hagvön í íslenskri veðráttu lengur og finnst vont að berjast í blindhríð. Eftir að hafa skemmt mér mikið yfir Gettu Betur og sigri minna manna og svo horft á hokkí leik þar á eftir þá lagði ég í´ann heim á leið. Það var snjókoma og hvasst og erfitt að sjá til hvar vegurinn liggur fyrir veðri og myrkri. Ég keyrði (lúsaðist) því framhjá afleggjaranum en þekkti trén og runnana við innkeyrsluna, bakkaði og keyrði svo inná rétt nóg til að afturendinn stæði ekki útá þjóðveg eitt. Hélt svo af stað gangandi upp hlíðina. Þetta eru nú ekki nema tvöhundruð metrar eða svo en ég hélt ég yrði úti samt. Það sáust ekki nokkur kennileiti og eftir nokkra stund ég datt útaf veginum og sökk í mittisdjúpan snjóinn en náði mér upp á fjórum fótum og skreið svo langa leið þangað til ég var komin uppfyrir klettana. Þá gat ég staðið upp og gengið nokkuð upprétt en með vindinn og snjókomuna í fangið. Ég komst svo inní hús nokkurnvegin ósködduð en sjaldan hef ég verið eins fegin að sjá húsið mitt og þá, og það tók mig dágóða stund að ná mér niður andlega og líkamlega. Ég var náttúrulega afar hrædd og blaut innað beini enda var rétt um frostmark úti og úrkoman í allt að því slydduformi en ég hef verið hóstandi síðan og helaum í öndunarfærunum. En fyrst þetta hafðist þá má víst setja þetta í hóp atvika sem gera lífið skemmtilegt og litríkt en það var svo sannarlega ekki þannig á meðan á því stóð.

Engin ummæli: