mánudagur, júlí 17, 2006

Komin heim til Rochester eftir fína Íslandsferð. Okkur Halla tókst að gera allt mögulegt til að viðhalda fasteignum okkar á Íslandinu, hefðum svo sem ekkert haft á móti því að gera meira en það eru víst bara 24 tímar í sólarhringnum og eitthvað þurfum við að sofa og svo þarf að njóta lífsins í fríinu. Við fórum í góða gönguferð á föstudaginn. Af stað lögðu átta manns frá Kleifunum við Ólafsfjörð. Upphafleg áætlun var að ganga í Héðinsfjörðinn og til baka aftur. Þegar að var komið var ljóst að gangan yrði erfið því Árdalurinn var fullur af snjó. Þegar uppá Rauðárskarðið var komið og við búin að njóta útsýnisins yfir Héðinsfjörðinn ákváðu sex úr hópnum að halda til baka en Halli og Ari bróðir hans ákváðu hins vegar að ganga til Siglufjarðar! Við hin fengum því góða fjögurra tíma fjallgöngu þennan daginn en þeir bræður nærri tólf tíma ferð. Ég keyrði til Siglufjarðar um kvöldið til að ná í herramennina. Halli var mjög sprækur og fann tiltölulega lítið fyrir göngunni en Ari var aumari en brattur þó og það var augljóst að þeir skemmtu sér vel á ferðalaginu. Þrátt fyrir að Halli hafi þurft að hætta við Laugavegshlaupið þá fór hann allavega í góða fjallgöngu í staðinn. Ég hafði búist við góðri göngu hjá okkur hinum en ég hafði alls ekki búið mig undir að ganga í snjó 3/4 af leiðinni. Næst fer ég betur skæð! Skór með harðri tá var nauðsyn þegar ofar kom í fjallshlíðina því þar var þétt hjarn undir sem erfitt var að fóta sig á í brattanum. Við gerðum ýmislegt í þessari Íslandsferð sem við höfum aldrei gert áður; fórum í siglingu um Breiðafjörð, gönguferð/hlaupaferð á Hverfjall í Mývatnssveit og svo gönguferðina góðu. Sumsé hin besta ferð í fríinu

Engin ummæli: