laugardagur, janúar 29, 2005
Upphitun
Í fyrra vor fórum við hjónin til 10 daga ferð til Suður-Kóreu sem í sjálfu sér er ekki í frásögu færandi. Ferðin var afar skemmtileg, við ferðuðumst um og enduðum á skíðasvæði inní miðju fjalllendi. Enginn var snjórinn því þetta var í byrjun júní, en skíðasvæði geta verið hin bestu útivistarsvæði á sumrin líka, enda fórum við í nokkrar góðar fjallgöngur á svæðinu þá daga sem við vorum þarna. Daginn sem við komum átti að vera 3ja kílómetra hlaup fyrir þá þátttakendur fundarins sem áhuga höfðu. All margir höfðu safnast saman fyrir framan hótelið þegar líða tók að hlaupatíma. Halli hafði hugsað sér að taka þátt svo við stóðum þarna saman og biðum eftir að sjá hvert halda átti. Ekki vissum við hvert því allt fór fram á kóreönsku svo við skildum ekki nokkurn skapaðan hlut af því sem sagt var og þá var bara að bíða eftir að hópurinn tæki á sig fararsnið og fylgja. Allt í einu kallar einn skipuleggjenda eitthvað í sitt gjallarhorn og allir leggja af stað í átt að stóru bílastæði, raða sér upp í afar jafnar raðir eins og herdeild og standa stífir og eru greinilega að bíða eftir skipunum. Þar sem þetta var í Asíulandi þá segir það sig sjálft að allir voru litlir og svarthærðir, og fyrir þá sem ekki vita þá er maðurinn mitt hár og ljóshærður, og þarna stóð hann í miðjum hópnum, hár og gæsilegur og vissi ekki hvað hann átti að gera, svo enn og aftur fylgdist hann vel með gerðum hinna. Byrjar þá stjórnandinn að gefa skipanir á kóreönsku í sitt ágæta gjallahorn og allir vissu greinilega hvað gera átti, því nú skildi hitað upp fyrir hlaupið á þann hátt sem allir þar í landi læra í skólum landsins frá fyrstu tíð. Halli gerði sitt besta til að fylgjast með en þarna stóð hann og baðaði út öllum öngum hálfum takti á eftir öllum hinum, svo þegar hinir beygðu sig niður þá stóð hann uppréttur og þegar hinir teigðu úr sér þá var hann enn að toga í tærnar. Afar lipur kona var fyrir framan hann í röðinni svo hann reyndi að fylgja henni, en sá sem var fyrir aftan Halla var í meiri vandræðum því minn maður hafði greinilega truflandi áhrif á takt æfinganna svo eftir dapra byrjun þá skipti sá um röð, fannst greinilega vænlegra að fylgja sínu heimafólki. Upphitunin tók nú sem betur fer ekki meira en fimm mínútur og svo var farið að snúa sér að aðalatriðinu, hlaupinu sjálfu sem minn er mun betri í en allara handa teiguæfingar, fettur og brettur.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli