fimmtudagur, janúar 20, 2005
Hugleiðingar um gæði menntunar
Ég var í Princeton hjá dóttur minni í síðustu viku. Þetta mekka menntunar verður mér alltaf tilefni til hugsana um gæði menntunar, hvað er gott og hvað er vont, hvers vegna, hvernig verður svona skóli að einum besta skóla heims, og hvernig er hægt að byggja svona skóla upp frá grunni. Ég verð alltaf viðutan þegar ég er þarna og þar sem Kristín er ekki vön því að hafa viðutan mömmu þá hefur hún alltaf áhyggjur af því að móðir hennar sé reið, eða leið eða óánægð þegar ég þegi þunnu hljóði tímunum saman. Það er nú alls ekki ástæðan heldur sú að ég fer alltaf í þann hluta hugans sem hefur með menntun og stjórnun menntunar að gera. Það væri ótrúlega skemmtilegt verkefni að byggja upp skóla frá grunni, með nokkurnvegin frjálsar hendur um mannaval, námsefni, skipulag og svo þarf náttúrulega góðan fjárstuðning. Þetta með fjármagnið er reyndar alls ekki aðal málið, það myndi gera hlutina auðveldari en gæði menntunar eru ekki bundin fjármagni eða launum kennara, nema óbeint sé. Kennarar fara t.d. ekkert að kenna betur en þeir gerðu áður ef launin hækka einhver ósköp því það væri náttúrulega þar með verið að gefa í skyn að kennara ynnu ekki eins vel og þeir gætu fyrir launahækkun. Aftur á móti er það vitað að laun hafa áhrif á hvernig lífsstarfið er valið. Því hærri sem launin eru því mun "betri" verður starfskrafturinn, þ.e. kraftmeiri, metnaðarfyllri, áhugasamari, meira skapandi, og skipulagðari. Þetta er náttúrulega alls ekki svona einfalt, það eru ótal breytur í jöfnunni og margt sem spilar inní en eftir stendur að launin ein og sér hafa ekki afgerandi áhrif á gæði skóla og menntunar. Vandamálið við að byggja upp góðan skóla er náttúrulega aðallega það að það er örugglega enginn sammála mér hvernig á að gera þetta eða hvað telst vera gott og vont í menntun!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli