föstudagur, janúar 21, 2005
Vetrardagur
Það snjóar þessa stundina og á að snjóa næsta sólarhringinn. Það er smá vindur með svo hér telst þetta vera stórhríð og körfuboltaleik kvöldsins hefur verið frestað. Karólína var óhress, vildi fá að spila við þetta lið sem þær töpuðu með 8 stigum fyrir síðast. Nú átti sko aldeilis að sýna þeim í tvo heimana. Ofankoman er nú engin ósköp og úrkoman er svona rétt 1-2 sentimetrar á klukkutímann. Það hefur verið fimbulkuldi hér síðustu vikurnar þetta svona 30 stiga frost á nóttunni og nær kannski 15-20 stiga frosti yfir daginn. Í dag er bara 6 stiga frost og það á að hlýna enn meira eftir helgi. Það verður gott að þurfa ekki að pakka sér inn, nasirnar haldast í sundur þegar andað er að, tærnar halda lit og naglakul er ekki daglegt brauð. Við höfum reyndar ekki hugsað okkur að flýja til Flórída eins og Halur Húfubólguson og spúsa hans ætla að gera. Við látum okkur hafa þetta og það þiðnar hérna með vorinu og svo í júní verður orðið svo heitt að vart verður haldist við utandyra nema á sundlaugarbarmi. Í júlí og ágúst verð ég á Íslandi og þarf ekki að upplifa 30-40 stiga hita og raka en þá er það rokið og rigningin sem kemur til með að lemja mig.........aldrei ánægð, alltaf eitthvað og það hlutir sem ég get nú bara alls ekki stjórnað, eins og veðrið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli