miðvikudagur, janúar 26, 2005

Vinskapur

Við eigum marga góða vini, eða svo höldum við. Margir þeirra hafa sótt okkur heim til fjarlægra landa, austan hafs og vestan, og sumir hafa jafnvel komið í kaffi á Lönguklöpp. Það er merkilegt með stóran hluta af þessum vinahópi að hann tilheyrir heilbrigðisstéttinni og þá aðallega þeim hluta hennar sem telst til lækna. Ekki veit ég afhverju, en svona er þetta nú og ekkert við því að gera lengur þar sem allt er þetta miðaldra fólk, virðulegt og ráðsett, sem ekki fer að skipta um karríer svona á þessu stigi málsins, enda engin þörf á þar sem mér er sagt að starfið sé fjölbreytilegt og skemmtilegt, allt efniviður í skemmtilegt og gefandi lífsstarf. Þar sem við búum nú í svokallaðri Mekka heilbrigðisþjónustu, heilbrigðismenntunar, læknisfræði, og læknisþjónustu, og Stofnunin eina og sanna býður uppá allra handa fundi, námskeið, endurmenntun og guð má vita hvað annað, þá er það nú býsna merkilegt að það er bara einn vinur (náttúrulega mun betri en hinir sem ekki hafa komið, hann er rithöfundur frá Reyðarfirði) sem komið hefur og sótt fundi sem Stofnunin hefur uppá að bjóða og svo annar náttúrulega góður líka sem komið hefur tvisvar til að skoða með eigin augum hvað maðurinn minn gerir svona dagsdaglega. Mér finnst að hinir sem gætu kannski haft gagn og gaman af heimsókn hingað ættu nú að fara að láta sjá sig, ekki í mýflugumynd heldu svona í einhverju stærra líki. Það er nú kannski að kasta steini úr glerhúsi að tala um fólk í mýflugumynd, mér skilst að fólk haldi að þannig lítum við út við hjónin.... en svo er nú það. Hér er hjá okkur staddur þessa dagana Norðmaður einn góður sem tilheyrir læknastéttinni. Hann býr hérna hjá okkur í tvær vikur og er einnig að athuga hvað maðurinn minn er eiginlega að aðhafast hér alla daga. Þetta þýðir náttúrulega að hér gengur heimilishaldið á þremur tungumálum, við þessi ráðsettu erum að blása rykið af norskunni sem er náttúrulega ekkert ryk heldur bara venjulegt ryð sem sums staðar er komið í gegn, því miður. Eftir bráðum 15 ár frá flutningi yfir Atlandsála þá eru mörg orðin all illilega gleymd og grafin, og þar sem minn heittelskaði er ekki mikill málamaður þá er þetta nú mun erfiðara honum en mér. Hann er kannski ekki málamaður í venjulegum skilningi en hann er afar laginn í nýyrðasmíðinni, norsku til handa. Ég fer örugglega að skrifa á norsku bráðum, ég stend mig allavega að því að hugsa og tala við sjálfa mig á norsku, það verður ekkert vandamál ef það eru Landar í heimsókn, því þetta Ilhýra kann ég enn eftir 18 ára útlegð.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl Katrín og takk fyrir að senda mér tengilinn. Gaman að gægjast inn í hugarheim þinn

Kveðja
Bjorg