fimmtudagur, janúar 27, 2005

Hundurinn okkar

Hann Þór okkar er orðinn gamall. Hann kom til okkar haustið 1993, sex vikna gamall, pínulítill og voðalega fallegur dökkur sheffer. Síðan þá hefur hann verið stór hluti af fjölskyldunni, verndar okkur öll fyrir ógnum umheimsins, myndi gera útaf við hvern þann sem sýndi börnunum einhverja óvirðingu. Hann lét ekkert kvikt í friði langt fram eftir ævi; kanínur, dádýr, þvottabirni, kalkúna og sérstaklega var honum uppsigað við íkorna. Honum er reyndar enn meinilla við þá, þrátt fyrir að mörg ár séu liðin síðan hann náði að elta uppi þann síðasta. Fyrir nokkrum árum síðan þá hafði íkorna grey einhverra hluta vegna troðið sér inní þakrennurör sem lá hérna bakvið hús og beið eftir að notað yrði í viðgerðir. Þór kom að þar sem dýrið var að reyna að komast út, hann beit fyrst í annan endann og svo hinn svo nú komst dýrið hvorugan veginn út. Hann gekk um lóðina með rörið í kjaftinu og dinglaði því aftur og bak og áfram með aumingja íkornan innanborðs. Hundurinn heyrði náttúrulega í íkornanum og vildi ólmur fá hann út og sá stutti var sammála en komst hvergi. Að lokum náðum við Þór inn en þá vildi ekki betur til en svo að bróðursonur minn sjö ára sem var í heimsókn var farinn að leika sér með þetta ágæta rör. Hann heyrði einhver hljóð koma úr rörinu, kíkti inn, sá lítið svo hann opnaði rörið aðeins til að athuga hvað væri á seiði og kemur þá ekki íkorninn fljúgandi beint í andlitið á honum. Aumingja Aroni brá svo skelfilega að ekki mátti á milli sjá hvor var meira skelfingu lostinn hann eða íkorninn. Nú sefur Þór flesta daga, enda heyrnin orðin léleg, gigtin slæm, og sjónin döpur. Hann á það nú samt stundum til að halda að hann sé ungur enn og hleypur þá um, brattur og í fínu formi, smá stund, en svo ekki söguna meir.

Engin ummæli: