föstudagur, janúar 28, 2005

Æfingar og annað trimm

Eins og fram hefur komið á þessari síðu þá er hjá okkur í heimsókn vinur okkar sem norskur er. Hann er svona af þessari gerð Norðmanna sem hjólar allt sem þarf, hleypur ef vill, fer í skíðagöngutúra lengri en við hin eigum að venjast, er brúnn og sællegur allan ársins hring, og gengur enn í stærð 28 þrátt fyrir árin 45. Skíðaferðir fer hann sumsé í svona til að ganga þvert yfir Grænlandsjökul og svo eyddi hann 6 vikum í norður-Kanada með tveimur öðrum mönnum, 30 hundum, í 40-60 frosti, og bjó að sjálfsögðu í tjaldi. Nú er það svo að ektamaki minn keyrir nánast aldrei bíl, á reyndar þrjú mótorhjól sem hann notar ekki á veturna nema þegar viðrar vel, hann hjólar eða hleypur til vinnu flesta daga, hleypur stundum maraþon og er að öllu jöfnu í fínu formi. Nú er svo komið fyrir honum að um hann má með sanni segja að andskotinn hafi hitt ömmu sína því nú er hlaupið tvisvar á dag, hjólað hraðar en venjulega, því gamall vani breytist ekki, hratt skal farið, og alltaf hraðar en samferðamennirnir. Þeir vinirnir hverfa hér úr húsi uppúr 6 á morgnana og halda til vinnu, koma svo rennsveittir innúr dyrunum um klukkan 7 á kvöldin, ægihressir, viðurkenna alls ekki að þreyta sæki að, háma í sig grautinn og eru svo sestir við tölvur til rannsóknaskrifa strax eftir matinn. Við meigum þakka fyrir að gesturinn sé hér í tvær vikur en ekki tvo mánuði, því þeir myndu annars ganga af hvor öðrum dauðum. Ég fylgist með úr fjarlægð, nálægð, fer í mína leikfimi, en verð þreytt á því einu að fylgjast með.

1 ummæli:

Guðný Pálína sagði...

Já, það er þetta með að vilja fara hraðar en samferðamennirnir... Ég veit um par sem eru bæði á fullu í líkamsrækt alla daga, það er hlaupið, það er synt, það er æft með lóðum o.s.frv. Þetta par er alltaf í keppni við hvort annað og tekur þetta svo alvarlega að á tímabili hafði ég áhyggjur af því að þau dræpu sig á þessu. Einu sinni sem oftar var þetta fólk að hlaupa stóran hring í nágrenni bæjarins, en þegar þau voru á leiðinni frá Kjarnaskógi stoppaði bíll á malarveginum og konan í bílnum spurði "Má ekki bjóða ykkur far, mér sýnist þið vera hálf þreytuleg eitthvað?" Hún hafði varla sleppt orðinu þegar hlaupakonan tætti af stað, mölin fauk í allar áttir og eftir smástund sást hvorki tangur né tetur af henni, það eina sem sást var rykmökkur sem litaði loftið....

Já, sumir taka líkamsræktina (og samkeppnina) alvarlegar en aðrir ;-)