þriðjudagur, mars 04, 2008

Ég viðurkenni það fúslega að það hefur verið skrýtið að vera svona lengi á landinu. Það er óskaplega mikil naflaskoðun í gangi hérna á landi núna þegar kaup-brjálaðinu er lokið í bili. Mér finnst meiri ró yfir samfélaginu en verið hefur undanfarin ár, kannski er það bara ég sem er rólegri, hvur veit. Kannski er það árstíminn og veðurfarið, það er ekki mikið hægt að "gera" þegar hann snjóar og rignir til skiptist, hávaðarok og logn, einn daginn sól og blíða þann næsta kolvitlaust veður. Mér finnst ágætt að vera hérna, það er gott að vera "heima" og ekki vera útlendingur. Við erum jú búin að vera útlendingar í 21 ár og það tekur í sálartetrið á stundum Ég fýkur í mig þegar ég les og heyri á tali fólks að "þessir útlendingar" séu nú svona og svona. "Þessir útlendingar" eigi nú bara að fara heim til sín. Ég er ein af þeim þótt ég sé ekki útlendingur hér á landi, þótt mér finnist það nú stundum. Það er nú þannig komið fyrir okkur hjónunum allavega að okkur finnst við stundum ekki eiga föðurland, jú við erum og verðum alltaf Íslendingar, en við förum heim í hvora áttina sem við förum svo þar með eigum við tvö heimalönd... ekki föðurlönd, heldur heimalönd. Það fer að styttast í flutninga heim á Frón svo það er eins gott að fara að venja sig við tilhugsunina. Við setjum stefnuna á 2010 plús/mínus eitt ár.

Engin ummæli: