sunnudagur, mars 30, 2008
Það var svo óskaplega gaman í morgun því þá fór ég á hestbak ásamt þilskipaútgerðarskrásetjaranum og henni Gurlu vinkonu okkar og svo tengdó hans. Það var reyndar alveg hrikalega kalt, svo kalt að ég dofnaði svo á tánum að þegar ég kom heim klukkustund eftir að reiðtúr var lokið þá voru tærnar ennþá mjallahvítar og dofnar. Enda vorum við með þeim örfáu sem riðu út í dag í hesthúsahverfinu. Ég hef ekki farið á hestbak í 10 ár og það var í Grand Teton þjóðgarðinum í Wyoming. Tveggja tíma ferð eða svo á fallegum slóðum þar sem reiðskapurinn var aukaatriði enda á hálfdauðum risa hrossum sem ekkert fældu. Þar áður fór ég í reiðtúr þegar ég var 11 ára eða svo. Í dag fór lítið fyrir hetjuskap mínum, ég var nú ekki mjög hughrökk á þessari líka fallegu meri en ég lagaðist þegar leið á og tókst næstum því að slappa af. Kannski næst. En gott var að vera úti og ennþá betra að koma í hús. Ég og merin vorum að ákveða allan tímann hvor okkar réði...ég vann, merkilegt nokk en mikið voðalega fannst henni leiðinlegt að láta þennan viðvaning stjórna sér.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli