þriðjudagur, febrúar 12, 2008
Komin á Klakann eftir hrakningar. Ég var veðurteppt í Boston í einn sólarhring vegna þess hversu illa gekk að afferma flugvélar Icelandair enda þurfti að bjarga einum farþega í einu með hjálp björgunarsveita og slökkviliðsbíla og það eftir margra klukkutíma bið um borð í vélunum. Það hefur verið leiðinleg bið það. Ég fór því í óvænta heimsókn til litlu drengjanna minna þeirra Jóhannesar og Haraldar og foreldra þeirra. Þau fluttu frá Rochester til Boston í fyrra sumar og við söknum þeirra óskaplega. Þessi töf kom sér því vel og það var voðalega gott að þurfa ekki að hanga alein á hóteli heldur vera á einkaheimili hjá vinum. Ég brunaði svo norður á sunnudaginn því ég byrjaði vinnu í gær og nú er það frá gengið að ég byrja doktorsrannsóknina mína í fyrramálið klukkan 10!!! jibíííí, loksins er komið að þessu. Mér tókst líka að ganga frá nettengingu fyrir Lönguklöpp og nú sit ég við eldhúsborðið mitt á Klöppinni og vinn hörðum höndum. Þetta er hinn mesti munur, því þá þarf ég ekki að leita mér að vinnustað hjá bræðrum mínum. Í dag er hávaðarok og gengur á með éljum. Ég vaknaði oft í nótt við hamaganginn en hann ætlar víst að lægja eitthvað einhverntíma.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli