fimmtudagur, janúar 31, 2008

Fyrsti skíðadagurinn í Vail að kveldi kominn, kannski ekki kveldi en skíðun er lokið í dag. Þvílík dýrð og dásemd. Hvergi skýhnoðra að sjá, allt á kafi í snjó, brekkur vel troðnar og tiltölulega fátt fólk. Klettafjöllin eins langt og augað eygir og einu dökku dílarnir sem sjást eru trén og meira að segja mörg þeirra eru hlaðin snjó. Við þurftum aldrei að bíða meira en í 5 mínútur í röð og það var bara fyrst í morgun þegar allir voru að koma sér af stað á sama tíma, eftir það rendum við okkur nánast beint í gegn. Enda erum við lúin eftir 4.5 klukkutíma skíðun. Á morgun er víst spáð stórhríð en mér skilst að veðurspáin hér sé óáreiðanleg svo ég ætla ekki að gefa upp vonina alveg strax. Það var alveg dásamlegt að þeysast niður langar brekkurnar og finna skíðin bregðast við eins og ætlast er til, finna skurðinn í beygjunum halda vel að, leika sér með litlar og stórar beygjur, j-beygjur og s-beygjur, hratt eða hægt. Leika sér aðeins í hólunum, ég mátti til, þeir voru svo freystandi. Finna kuldann bíta kinnarnar, setjast niður með mínum besta vini yfir kaffibolla á fjallstoppi með útsýni yfir vetrarfegurðina. Leika sér í snjónum eins og unglingar. Hver segir svo að það þurfi bara að þreyja Þorrann og Góuna og þá verður allt betra. Lífið verður nú ekki öllu betra en þetta svona þegar leikur er annars vegar.

Engin ummæli: