þriðjudagur, október 20, 2009

Ég þarf að vera betri í að lifa í núinu. Ég er alltaf að hugsa um það sem ég ætla að gera, ætti að gera, vildi gera eða þyrfti að gera. Fyrir vikið þá gleymi ég núinu og nýt þess alltof sjaldan.

Ég er að reyna að minna sjálfa mig á að njóta fegurðarinnar í náttúrunni þessa daga. Skærir og fallegir haustlitir hvert sem litið er, loftið tært og haustilmur í lofti.

Uppáhaldstími ársins.

Undurfallegt úti.

Yndislegt.

föstudagur, september 25, 2009

Loksins, loksins er farið að rigna. Hér hefur verið óskapleg þurrt og það kom ekki dropi úr lofti í nærri fimm vikur og á þessum tíma var heitt og þurrt loft yfir okkur. Það er slæmt fyrir gróðurinn að vera í stress þurrki þegar veturinn skellur á. Það er reyndar ekkert sem bendir til þess að vetur kallinn sé á næsta leiti en það smá kólnar. Það fer kannski niður fyrir 20 stigin í næstu viku, líklegast 1. október, og er það nú bara eins og búast má við.

Mér líkar vel í vinnunni. Ég er svona smám saman að komast inní verkefnin mín og deildina. Ég er að rannsaka sjúklinga sem velja að láta gera á sér gena greiningu. Af hverju þeir ákveða þetta, hvernig þeim líður á meðan beðið er eftir niðurstöðunum, hvernig þeir taka niðurstöðunum og svo hvað þeir gera við niðurstöðurnar. Mjög áhugavert verkefni.

sunnudagur, september 20, 2009

Þá er Halli minn kominn og farinn. Kom frá Póllandi í gærkveldi og fór til Brasilíu í morgun. Ætlunin var að ég færi með honum í bæði ferðalögin en vegna nýju vinnunnar þá gekk það ekki upp. Ef ég hefði sagt henni að ég gæti byrjað 1. okróber þá hefði þetta gengið en ég hreinlega steingleymdi þessum ferðalögum þegar ég var að ræða við yfirmann minn og mér fannst það bara ekki vera mjög sniðugt að koma með "by the way...." Ég ætla bara að vona að hann geti farið út að hlaupa þegar hann kemur loksins á áfangastað eftir 27 tíma ferðalag. Hann ætlar að hlaupa Twin Cities maraþonið eftir tvær vikur og hann verður víst að halda sér gangandi og í formi þangað til.

föstudagur, september 18, 2009

Mikið voðalega sem mér líður vel því ég var að koma úr ræktinni minni. 90 mínútur í dag. 50 mínútur í cardío, 25 mínútur að lyfta og svo 15 mínútur í teygjur, maga og bakæfingar. Ég hef bara verið nokkuð dugleg að undanförnu. Ég sé á skjánum í ræktinni að af síðustu 12 dögum hef ég farið 10 sinnum og af þessum tveim frídögum fór ég út að hlaupa í Madison. Ekkert langt en út fór ég. Á morgun ætla ég að fara út að hlaupa meðfram Zumbro ánni, ég ætla að gera eina tilraun enn að koma mér í hlaupaform, það verður bara að koma í ljós hvort mjaðmirnar mínar þola þetta núna.

Veðrið hefir verið með ólíkindum gott síðan við komum frá Íslandi. Fyrstu nóttina eftir að við komum var þrumuveður og rigning en síðan þá hefur verið sól og logn uppá hvern einasta dag og svona 25-30 stiga hiti og nánast enginn raki og engar flugur. Gerist ekki betra. Reyndar er þetta ekki gott fyrir gróðurinn því það er allt orðið skraufþurrt en mikið sem þetta er gott veðurfar. Helgin á að vera eins en kannski fer að kólna eftir helgina, svona niður í 22-25 gráður en sól. Það er smá séns á rigningu á mánudaginn, sem væri náttúrulega bara allt í lagi.

miðvikudagur, september 16, 2009

Ég byrjaði í nýju vinnunni í dag og mikið sem það var yndislegt að fara í vinnuna og hitta nýtt fólk. Mér líst vel á þetta, ég sit reyndar við skrifborð allan daginn en ég er að glíma við hluti sem reyna á ýmislegt sem ég hef lært í gegnum tíðina. Mér líst afar vel á rannsóknarverkefnin og þetta á vonandi eftir að verða mjög skemmtilegt og bjóða uppá meira en bara skrifborðsstólsetu allan daginn með tilheyrandi glápi á tölvuskjá.

mánudagur, september 14, 2009

Jæja, þá ætla ég að byrja að blogga aftur. Smá pása er ágæt, svona í hófi. Það er allt gott að frétta héðan af vesturvígstöðvunum, börnin komin í skóla og vinnu og við gömlu enn og aftur orðin ein í kotinu. Helginni eyddum við í Madison Wisconsin að horfa á Ironman og mikið óskaplega var það skemmtilegt. Ég er nú eiginleg bara orðlaus yfir fólki sem leggur þetta á sig. Gamall vinur og æskufélagi Halla úr Borgarnesi tók þátt og stóð sig frábærlega. Hann synti í 75 mínútur, hjólaði í sex og hálfan tíma og hljóp svo maraþon í lokin á fjórum og hálfum tíma. Með öllu þá voru þetta rúmir 12 tímar. Geri aðrir betur, hann sem vinnur langt fram eftir öll kvöld og æfir þegar hann getur en ekki þegar hann þarf.

Ég er að vonast til að byrja í nýrri vinnu á miðvikudaginn. Ég er að flytja mig til innan Mayo og er að fara að vinna á Bioethics deildinni við rannsóknir. Ekki endilega það sem mig langar til að gera, mér finnast úttektir miklu skemmtilegri en rannóknir, en ég tek þessu með þökkum því það er sko ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur að atvinnumöguleikum þessa dagana. í Bioethics bíða mín nokkrar rannsóknir, sú fyrsta er um predictive genomics, þ.e. af hverju fólk velur að fá genaupplýsingar og hvað fólk gerir svo við upplýsingarnar þegar þær eru komnar. Önnur rannsókn er um death and dying og almenna umræðu og ráðgjöf þar um. Ég er að bíða eftir að pappírarnir gangi í gegn á Mayo og vonandi byrja ég sem allra fyrst. Halli er að fara til Póllands á morgun og þaðan beint til Brasilíu og ég verð vitlaus ef ég byrja ekki að vinna í þessari viku.

mánudagur, júní 22, 2009

Það er nú búið að vera stanslaust prógram hjá okkur síðan við komum til Íslands. Hver dagur hefur verið skipulagður frá morgni til kvölds. Það hefur sína kosti og galla. Kostirnir eru þeir að við komum miklu í verk en gallarnir eru þeir að við höfum lítinn tíma til að gera það sem okkur langar til þá stundina. Ekki að þetta hafi verið leiðinlegt, ó nei.

Það hefur verið ofsalega gaman. 30 ára júbíleringin var mjög skemmtileg, skírn, 80 ára afmæli tengdamömmu að ógleymdum gærdeginum sem fór í flúðasiglingu í Hvítá. Það var ótrúlega skemmtilegt. Þetta var fimmtugs afmælisgjöf til Halla frá tveimur dásemdarvinum og þvílík gjöf. Ég mæli með þessu.

Okkur varð náttúrulega óbærilega kalt í jökulánni og mér er svona rétt farið að hlýna almennilega núna 17 tímum eftir að við komumst í hús. En fegurðin frá ánni, spennan að róa niður flúðir, hmmm, þetta voru svo sem engar hetju flúðir sko, en hentuðu okkur byrjendunum vel, svo gufan, heit sturtan og heit súpa á eftir var vel til fundið eftir volkið.

Við erum dulítið eftir okkur í dag, það verður að viðurkennast, en ekki svo. Ég ætla að reyna að komast í ræktina, ef það tekst ekki þá ætla ég allavega að fara í góðan göngutúr/hjólatúr um borgina.