föstudagur, febrúar 16, 2007

Takk öll fyrir umhyggjuna. Það er nú einu sinni svo að þegar búið er að tína hismið frá kjarnanum þá stendur uppi þetta mannlega. Vinir og fjölskylda. Þegar fjölskyldan er svo í tveimur heimshlutum og vinirnir líka þá tekst tryggðin all verulega á, því vinir og fjölskylda eru á báðum stöðum og því er það tryggð við eigin sál sem uppi stendur og blessuð sálin getur verið sár og erfið meðferðar. Ef þetta væri svört og hvít ákvörðun þá væri þetta einfalt en þetta er eins grátt eins og hægt er að hafa það. Kostirnir og gallarnir miklir á báðum endum og það nánast á ólíkum sviðum. Foreldrar okkar og eigin systkini og fjölskyldur þeirra á Íslandi, börnin okkar hérna megin; vinirnir á báðum stöðum, þeir gömlu heima og þeir nýrri hér; ótrúlega spennandi og krefjandi fagleg vinna hérna megin en áskorun um mikla stjórnunarvinnu og nýjan spítala hinumegin; góð laun hérna megin en allt óvíst hinumegin; 20 ár hérna megin og 27 hinumegin; mikil vinna hérna megin en líklegast ennþá meiri hinumegin; George Bush hérna megin og Óli Grís hinumegin; ÍSLAND öðrumegin og USA hinumegin; kalt öðrumegin og heitt hinumegin (veljið sjálf árstíðina).

Mér sýnist það vera tæpt þegar þetta er allt lagt á vogarskálarnar.

2 ummæli:

ærir sagði...

Þetta getur aldrei orðið ákvörðun sem byggist á skynsemi held ég. Hún ræðst af tilfinningum. Fyrir mig var klárlega röng fagleg ákvörðun að fara heim, með gylliboð og loforð sem ekki héldu trúandi því að hægt væri að kippa fornlegum hugsunarhætti til erlendra nútíma hugmynda. En þeir eru margir sem vilja láta klóra sér á bakinu áður en þeir fara að klóra þér, var "mér sagt". Og hér tíðkast "umræðu" stjórnmál. Umræður, fundir og vangaveltur án ákvarðana, eða þær svo erfiðar að auðveldara væri að snúa olíuskipi í höfninni á Ólafsfirði. Þetta hljómar kannski sem bitur og súrt. En samt var gott að koma heim og hér er gott að vera og ég trúi enn að hægt sé að breyta mörgu. Auglýsingin sem þið eruð að taka afstöðu til hefur verið MÖRG ár í bígerð en hún gefur meiri tækifæri en allt sem áður hefur verið sagt og skrifað áður. Því bæði aðalembættin eru auglýst í sama pakkanum. Það var nokkuð sem kom mér þægilega á óvart að skyldi hafast í gegn. Kannski er eitthvað að breytast. Það er því að held ég klárt að sá sem fær þetta (þessi) störf mun hafa afgerandi áhrif á hvernig þessi fræðigrein og þjónusta þróast hér á landi næstu áratugina. Það hlýtur að kitla en það er illa launað.

Katrin Frimannsdottir sagði...

Ég reikna með að hann sæki, (segi þetta án ábyrgðar og án þess að ákvörðunin sé endanlega tekin) og svo sjáum við til hvernig ferlið gengur. Þetta snýst nefnilega ekki bara um okkur eða þessa vinnu. Börnin okkar eru MJÖG stór þáttur og samtöl við þau eru ekki einu sinni byrjuð.