þriðjudagur, apríl 18, 2006

Nú þykist ég sitja við að skrifa doktorsritgerð, fyrsta kaflann, berst um á hæl og hnakka að koma allri vitneskjunni á blað þannig að aðrir skilji. Stundum finnst mér ég ekki vita neitt og hef því ekkert að skrifa og í annan tíma er ég svo uppfull af hugmyndum og þekkingu að það fer allt í hnút í heilanum á mér og þar með get ég hvorki skrifað þegar ég ekkert veit eða veit mikið. Svo enn aðra daga þá allt í einu léttir þokunni og ég sé þetta allt mjög skýrt og finnst þetta lítið mál, en það er því miður ekki oft en í gærkveldi kom svona stund þar sem ég náði mér á flug og tókst að koma rauða þræðinum alla leið. Þá er að setja kjötið á beinin og fá einhverja mynd úr þessu öllu saman. Þarf víst að klára fyrir næsta miðvikudag, er nú ekki viss um að það takist en ég er að reyna og meira get ég víst ekki ætlast til af sjálfri mér. Ég er oft voðalega vond við sjálfa mig og finnst ég heimsk, vitlaus og löt en ég verð víst að vera það (þ.e. vond) til að ná settum markmiðum.....er það ekki svoleiðis sem þetta virkar?

4 ummæli:

ærir sagði...

Ærir kannast ekki við þá mannlýsingu sem að ofan er greint frá. En mikið ask. ertu dugleg að setjast við doktorsritgerðarskriftir, en Ærir er sannfærður um að kjötið kemur á beinin þegar þráðurinn er lagður. Þetta er bara púl og aftur púl og verður það næstu mánuði. Hafa eitthvað annað til að hugsa um og gleyma sér á milli er mikilvægast, ef ég man rétt frá þessum tímum.

Katrin Frimannsdottir sagði...

Það er víst ábyggilegt að það er nauðsynlegt að taka hugann frá þessu verkefni reglulega. Ég hef hugsað mér að gleyma mér á golfvellinum í sumar, allavega svona einu sinni í viku, svo og í góðra vina hópi bæði hér vestanhafs og á Íslandi.

ærir sagði...

hljómar gáfulega, Ærir var einu sinni golfmeistari unglinga (eða minnir svo, á reyndar ekkert því til staðfestingar sem er grunsamlegt) í Golfklúbbi Ólafsfjarðar (keppendur í þeim flokki yfirleitt bara hann eða hugsanlega einn annar sem þá fór oftast með sigur af hólmi).

Ærir reyndi fyrir sér í usa fyrir nokkru síðan og keypti nýjan dræver (big bertha) og hitti ótrúlega vel eftir að hafa eytt formúu í instrúktór. Ærir err því viss um að kylfur í dag eru betri en þær voru hér áður fyrr, en þorir ekki að láta reyna á þá kenningu að fullu.

er kominn titill á doktorsverkið? það reyndist mér ótrúlega erfitt og var síbreytilegt eftir því sem því miðaði áfram?

Katrin Frimannsdottir sagði...

Í gær hét verkefnið "What happens in the area of inquiry when an evaluation takes place?" í dag heitir það "The mechanism of evaluation influence" á morgun heitir það eflaust eitthvað allt annað en það snýst um það hvað gerist innan stofnunar (í þessu tilfelli íslenskra skóla) þegar mat eða úttekt (sjálfsmat í þessu tilfelli) er gerð.