mánudagur, febrúar 04, 2008

Það var stórhríð sem mætti okkur í gærmorgun þegar við héldum af stað á flugvöllinn. Þar biðum við í nærri tvo klukkutíma eftir að vélin okkar sem hringsólaði fyrir ofan okkur lenti. Þegar við gengum um borð var skyggnið orðið að engu en í vélina fórum við og biðum svo í tvo tíma á flugbrautinni þangað til fluginu var aflýst endanlega. Þá var að reyna að finna hótelherbergi nálægt vellinum og það var þrautin þyngri því einum 10 vélum var aflýst og flestallt ferðamenn eins og við í leit að næturstað. Mér tókst að finna herbergi á hóteli en það eina sem var laust var reykingaherbergi og það er eins og þetta hafi verið hebergi sem var frátekið til þess eins að reykja í, stanslaust, þvílík var lyktin, meira að segja handklæðin voru gegnsósa af reykingalykt. Við (þ.e. ég) horfðum svo á seinni hálfleik Superbowl. Alveg afbragðs góður leikur. Í morgun var þétt snjókoma en á völlinn fórum við og eftir tveggja tíma bið létti til og eftir klukkutíma bið um borð á meðan vélin var afísuð þá komumst við loksins í loftið og heim komum við sólarhring á eftir áætlun.

Þetta var mikil draumaferð. Síðasta daginn fórum við á svæði sem kallað er Blue Sky Basin og það var ótrúlega skemmtilegt. Það er nýjasta svæðið og þar eru ekki bara leiðir sagaðar úr skóginum eins og á eldri svæðunum heldur eru tré skilin eftir hér og þar og svo er skíðað á milli trjánna og því er eins og maður sé aldrei á sömu skíðaleiðinni því það er alltaf eitthvað nýtt að prófa. Skíðafærið var með eindæmum, veðrið fyrir það mesta alveg afbragð, dásamlegir veitingastaðir og skemmtilegt fólk, aaahhhhh það gerist bara ekki betra blessað lífið.

2 ummæli:

Guðný Pálína sagði...

Já, fólk verður greinilega veðurteppt á fleiri stöðum en Íslandi ;-) En gaman að heyra að þið nutuð skíðaferðarinnar.

Nafnlaus sagði...

Já þar víst ábyggilegt að veðurteppa er ekki sér-íslenskt fyrirbrigði. Þetta gersi sjaldan hér í Minnesota en mjög oft í Klettafjöllunum. k