fimmtudagur, apríl 07, 2005

Bílferð

Á mínum unglingsárum þá fór ég í Borgarnes minnst einu sinni á sumri til að heimsækja ungan mann sem þar bjó. Þessi ungi maður átti það til á veturna að banka á gluggann minn seint á kvöldin ef hann var svangur og þá var hann gjarnan í fylgd fleiri vina úr Skólanum. Því var það að þegar bankað var á gluggann minn á fallegri snemmsumarnótt 1978 þá var ég nú ekki alveg viss um hvað um var að vera því ungi maðurinn var farinn til síns heima og ég átti því alls ekki von á neinum, hvað þá á gluggann. Ég kíkti út og þar stóðu tveir af þessum ágætu vinum hans (okkar) og vildu fá mig með í bíltúr suður á land. Ekki strax þá um nóttina en svona næstum því. Annar þeirra hafði keypt sér splunkunýjan bíl úr kassanum stuttu áður og var það afar óvenjulegt því fæstir okkar skólakrakkanna áttu bíl, hvað þá nýjan úr kassanum. Það átti sumsé að nota sér farkostinn fína og bruna í Borgarnes í heimsókn til vina okkar þar. Skrásetjarinn frá Reyðarfirði hætti við allt saman og ákvað að suðurferðin væri ekki fyrir hann en Ærir og ég ákáðum að halda í´ann daginn eftir. Ferðin gekk vel framan af Öxnadalurinn, Öxnadalsheiðin og Blönduhlíðin tók okkur eina tvo tíma. Það voru náttúrulega malarvegir sem við keyrðum á og á vorin þá litu þessir ágætu malarvegir ekki svo íkja vel út, það voru víða hvörf í veginum, svo Ærir keyrði varlega á nýja bílnum. Þegar kom uppá Vatnsskarðið þá var ljóst að vegurinn þar var öllu verri en verið hafði og því var keyrt enn hægar. Varkárnin reyndist ekki næg því allt í einu datt litli Trabantinn nýi ofaní heljarinnar hvarf og festist þar. Það sem Trabantar eru (voru?) ekki gerðir úr varanlegum málmi heldur trefjaplasti ef ég man rétt þá var nú ekki erfitt að ná honum uppúr en nú fór í verra því pústkerfið hafði skemmst í meðförunum. Pústkerfið í Trabant er ekki á sama stað og á öðrum bílum og hafði það farið í sundur rétt fyrir framan mælaborðið. Áfram var samt haldið en það sem brotnað hafði var ekki til í að hafa hljótt um sig á leiðinni heldur hagaði sér eins og brotnum pústkerfum sæmir og var með mikinn hávaða og læti og það sem eftir lifði ferðar gátum við ekkert talað saman og höfum við bæði búið við varanlega heyrnarskemmd síðan. Við náðum í Borgarnes eftir langa ferð, 7 tímar ef ég man rétt, og þegar keyrt var inní sofandi bæinn þar sem aldrei slíku vant var logn þá glumdi svo vel í öllu að hálfur bærinn vaknaði með andköfum og var víst rætt um það víða daginn eftir hvaða flugvél hefði eiginlega farið yfir bæinn um nóttina.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Áhugaverð saga fyrir rannsóknir á uppruna Æris-heitisins, ennfremur er hún ánægjuleg aflestrar. Það er auðvelt að sjá suma fyrir sér í ferð þessari, þar þarf engar myndir til hliðsjónar. Vissi þó ekki að kapítalismi hafi verið ríkjandi á þessum árum norðan heiða í fiskiplássum, kannski er þetta bara austur-þýskur kapítalísmi!?
Halur

Nafnlaus sagði...

Ég er þakklátur fyrir gott minni skólasystur minnar. Þessi saga hefur enn ekki komið fram í Reyðarfjarðarannáli skrásetjarans mikla sem sérhæft sig hefur í þilskipaútgerð. Trabant var góður bíll (víst ekki hægt að segja lengur er og verður). Mér tókst að grafa djúpt í huga mér eftir annari Trabant sögu, þar sem ungi maðurinn kemur líka við sögu, þá sem farþegi ef ég man rétt. Hún er nú færð í letur á annari síðu. Trabant tímabilið var merkur kafli. Vonandi tekst mér að rifja upp fleiri sögur af þeim ljúfa bíl (þegar með púströr í lagi).
Kveðja til unga mannsins!