miðvikudagur, apríl 06, 2005

Plága

Ég framdi fjöldamorð á maríuhænum í gær. Maríuhænur eru mikil plága hér, þær koma í hundruðum þúsunda, alltaf saman í skýjum og smokra sér inn um allar glufur sem finnast. Þetta eru reyndar ekki alvöru maríuhænur, eru víst kallaðar asíu-bjöllur og eru appelsínugular með svörtum doppum, en ég kalla þær nú samt maríuhænur. Þessi plága byrjaði árið 2000 og eins og svo margt annað komu þær frá Iowa hingað uppeftir. Verst er þetta á haustin en núna þegar hlýtt er þá fylla þær glugga og loft svo varla sést út eða í litinn á bakvið. Ég tók mig því til í gær og ryksugaði gluggana og loftin einu sinni á klukkutíma og þá náði ég hundruðum í einu. Ryksugun er eina leiðin til að þetta sé ekki subbuverk, það er hræðilega vond lykt af þeim þegar þær eru klesstar, minnir helst á gamlan fituþráa, svo nú tekur því ekki að ganga frá ryksugunni og fjöldamorð verða framin næstu daga. Halli var ekkert skárri en ég í gærkveldi hann gekk um vopnaður ryksugu og saug þær inn hvar sem þær var að sjá og finna.

1 ummæli:

Guðný Pálína sagði...

Oj bara! Fegin að þurfa ekki að standa í svona slátrun ;o)