miðvikudagur, apríl 23, 2008

Tiltekt í bílskúrnum

Á föstudaginn var þá fórum við Halli í Borgarnesið til tengdaforeldra minna. Bjarni hafði beðið Halla að hjálpa sér við að koma nokkrum hlutum á haugana. Við erum með dráttarkrók á gamla græna og því fóru þeir feðgar í Húsasmiðjuna og leigðu kerru og kassatrillu því koma átti ónýtri frystikistu og uppþvottavél á haugana ásamt einhverju smálegu. Það varð þó fljótlega ljóst fyrst við Halli vorum á staðnum að meira en smálegt myndi hverfa en fyrst var nú bara tekið það sem auðvelt var og augljóst að mátti missa sín. 

Á meðan þeir feðgar fóru á haugana þá tókum við Kristín til hendinni og ég náði að komast alla leið að endavegg bílskúrsins, nokkuð sem ekki hafði verið gert síðan húsið byggðist 1964 því þar voru vírar sem höfðu verið notaðir í járnabindingu hússins. Það var því myndarlegur haugur sem mætti þeim feðgum þegar þeir komu til baka og það var ljóst þegar hann sá hauginn að tengdafaðir minn var ekki ánægður með mig og fannst ég vera heldur stjórnsöm. Hann fór því í gegnum hauginn en það var bara einn gamall lampi sem fékk að fara til baka. Ekki það að ekki hafi verið nöldrað, tuðað og rökrætt, það fór mikill tími í það en hann sá að það voru lítil not fyrir rimlagardínur frá 1964, sóltjald á svalirnar þar sem nú er sólhús, sængur angandi af raka og myglu, brotnar plasthillur, föt frá því í hinu lífinu og mölbrotna blómapotta. Ég spurði hann svo hvað ætti að gera við stafla af dekkjum sem voru í horninu og fór að tína þau út og fram komu átta dekk sem ekki pössuðu undir bílinn. Þá tók Halli fram mjótt dekk, lítið breiðara en nútíma hjóladekk, og spurði pabba sinn hvort hann myndi eftir hvaða bíl dekkið tilheyrði og sá gamli hélt það nú, "þetta er undan Skódanum". "Ekki bara Skódanum" svaraði Halli "þetta er undan fyrsta Skódanum þínum, árgerð 1959 eða svo". Sá gamli leit á dekkið og sagði "dekkið er alveg óslitið". Jamm, og gúmmíið eflaust heilt líka. 
Í hinu innra horni bílskúrsins var annar stafli af dekkjum, ein tólf stykki, en þau fékk ég hann ekki til að hreyfa.  

Ég spurði svo hvort hægindastóllinn sem trónaði á miðju gólfinu mætti fara. Sá gamli hélt nú ekki, "ég á þennan stól og ég ræð hvað verður gert við hann. Ég fékk hann í fimmtugsafmælisgjöf". Gamli er 87 ára. Ég gaf mig og það er eins gott að sá gamli er fastur fyrir því eftir á að hyggja er þetta allra laglegasti stóll, en hann hefur verið í rakanum og skítnum í bílskúrnum í áratug eða svo og ber þess skýr merki. Ef hann verður yfirdekktur þá verður hann að allra laglegustu mublu því hann er mjög fallega hannaður. 

Gamli settist svo niður í haugskítugan stólinn í nýhreinsuðum jakkanum sínum og renndi augum yfir hillurnar. Hann benti okkur á tjöld sem voru þar, "annað þeirra er gamalt, en hitt er nútímatjald". "Já, ég á þetta gamla tjald" svaraði tengdamóðir mín, "ég fór með það í skátaútilegur þegar ég var krakki". Hún er 79 ára. Tjaldið er hvítt með reimum að framan og tré súlum og að sjálfsögðu botnlaust. Nútímatjaldið var keypt 1978 en ber þetta virðulega heiti vegna þess að það hefur botn, rennilás og himinn! Bæði tjöldin fengu að vera og vorum við öll sammála um það. 

Í einum af mörgum svörtum ruslapokum í bílskúrnum fann ég gamlan "mokka jakka" (ekki veit ég hvaðan þetta heiti kemur) og honum vildi ég alls ekki henda því þetta er fallegur jakki en þarf að fara í hreinsun, hann er svolítið sorglegur eins og er. "Þetta er ekta lambsskinn sem búinn var til á Heklu fyrir Rússana" sagði sá gamli. Ég lagði til að hann gefi nafna sínum þeim eldri jakkann og var sá gamli alsæll með uppástunguna. 

Þegar þeir feðgar komu heim úr fyrri ferðinni þá komu tveir svartir plastpokar með til baka. Annar þeirra var með rauðum "nýlegum" svefnpoka í, að mér fannst angandi af raka og myglu en gamli sagði pokann heilan og fínan til síns brúks. Ekki vil ég sofa í honum. Hinn svarta pokann sá ég nú aldrei en frétti af honum nokkrum dögum seinna. Sá gamli hafði fundið poka með gömlum fötum sem hann hafði ekki farið í gegnum sjálfur en hann gerði sér grein fyrir að hann myndi mæta mótspyrnu þegar heim var komið og bað því son sinn um að dreifa athygli okkar kvennanna svo hann gæti laumað pokanum inn. Halli sagðist ekki taka þátt í svona svo gamli kom pokanum víst bak við hús fyrst. Hvort hann er þar enn veit ég ekki. 

Þegar ég hafði tæmt að mestu lítinn skáp sem komið hafði verið fyrir á einni hillunni þá glitti í annan á bakvið. Þar var kominn kistill sem kall minn fékk frá föðurbróður sínum þegar hann var lítill. Kistillinn fylgdi okkur á Hjarðarhaganum, Tjarnarlundinum og Stapasíðunni en þegar við fluttum til Noregs þá fengum við að geyma hann í Nesinu. Ég hafði leitað dyrum og dyngjum að þessum kistli fyrir mörgum árum án árangurs og hélt að hann hefði týnst í einhverjum flutningunum. Þarna var hann kominn blessaður og í honum var matarstell, eða það sem eftir var af því, sem amma mín blessunin hafði gefið okkur stóran hluta af. Nú er kistillinn kominn á Kvisthagann og trónir þar undir fallegum glugganum. Ja, hérna þetta er eins og fjársjóðleit að fara í gegnum bílskúr hjá tengdó.

Við vorum öll sammála um þegar kerrunni hafði verið skilað og tvö hlöss af drasli höfðu komist á haugana að þetta hefði gengið ljómandi vel. Gamla fannst hann nú hafa verið í vörn stóran hluta dagsins en þetta gekk nú vel að lokum og þá er bara að ráðast í efri fataskápana inni. Þar hefur ekki verið tekið til lengi enda þau orðin alltof gömul til að príla í stigum. Tengdaföður mínum finnst það nú ekki en við hin í fjölskyldunni erum á móti svoleiðis ævintýramennsku. Mágkona mín og dóttir hennar eru með það á stefnuskránni. Þær þurfa að undirbúa sig vel fyrir átökin, andleg sem líkamleg.

3 ummæli:

Guðný Pálína sagði...

Þetta er algjör snilld! Gaman að þið skylduð fá kistilinn ykkar aftur í hendurnar, það hlýtur að hafa verið ánægjulegur bónus við tiltektina :-)

Katrin Frimannsdottir sagði...

Þetta var hinn skeemtilegasti dagur og ég hreinlega varð að skrifa um daginn. Þeir koma ekki margir svona góðir. kata

ærir sagði...

óborganlegt, takk fyrir, skemmti mér konunglega við lesturinn og sá þetta allt fyrir mér ljóslifandi.