þriðjudagur, mars 15, 2005
Ferðalag
Þá erum við komin til baka eftir Evrópuhopp. Ég varð reyndar eftir á Íslandi þegar þau feðgin lögðu í hann. Það var yfirbókuð vélin svo ég bauð mig fram til að taka næstu vél, enda ekki á hraðferð hingað heim því ég þarf ekki að mæta í vinnu fyrr en seinna í vikunni. Fyrir ómakið fékk ég ókeypis flugmiða milli heimsálfa, ekki amalegt þar sem ég er á ferðinni oftar en flestir. Eitt sinn lýsti vinur okkar, góðskáld og skrásetjari frá Reyðarfirði, því þannig að þegar við hjónin ferðuðumst á milli Íslands og Minnesota þá notuðum við skiptimiða hvors annars, ekki fráleit lýsing það. Vínarborg er fín borg, voðalega fín, en mér fannst Prag skemmtilegri. Vín er annsi þung fyrir sextán ára ungling, jafnvel þó unglingurinn sé ljúfur og þægilegur í alla staði. Eftir að hafa gengið Vín þvera og endilanga í þrjá daga, farið á safn (eintala varð það að vera), Óperu (Leðurblökuna) þá vorum við mæðgur eiginlega búnar að fá nóg, kall minn var á fundum alla daga til hádegis svo við mæðgurnar gerðum þetta í bróðerni fram eftir degi og svo kom hann með í leiðangra seinni hluta dags. Við fengum kalt og napurt veður, hríðarhraglanda, rok (sumir kalla þetta golu, ekki við) svo það þurfti að haga seglum efir vindi og skoðunarferðum haldið innan þolanlegra veðurmarka. Við notuðum okkur hin ótalmörgu kaffihús borgarinnar oft og iðulega, eitt af því sem okkur finnst hvað skemmtilegast að gera á ferðalögum, sitja yfir kaffibolla og horfa á mannlífið. Svo keyrðum við til Prag, fyrst í gegnum sveitirnar þar sem eldgamlir Skódar og pólskir Fíatar lifðu enn nothæfu lífi, gegnumriðgaðir bílar heima við hvert hús og á hverjum akri og ekki mikil efni eða metnað að sjá. Þegar við keyrðum inní Prag var eins og við kæmum inní annan heim, vestræn ljósaskilti á fallegum húsum í neo-klassískum stíl, höfðinglegar byggingar og list af öllu tagi hvert sem litið var. Götur iðandi af lífi og athafnasamt fólk við iðju sína, vigerðir allsstaðar, þrifalegt og snyrtilegt allstaðar. Gyðingahverfið fannst mér það áhugaverðasta, bæði ofsóknarsaga gyðinga og svo athafnasaga þeirra. Svo fórum við á mjög athyglisverða sýningu um sögu kommúnismans og áhrifa hans á sögu, þróun, menningu og hugarfar Tjékka. Ísland tók svo við okkur baðað í sól, en þetta var svona gluggaveður þar sem kuldaboli var í öllum krókum og kimum utandyra, hafði lag á að troða sér innundir hvar sem op var að finna. Okkur tókst reyndar að fara á göngutúr á Ægisíðunni í sólsetrinu fyrsta daginn, áður en kuldinn varð allsráðandi, og ekki var það dónalegt. Á sunnudagskvöldið fór ég svo á sérdeilis skemmtilegt leikrit í Borgarleikhúsinu, Híbýli Vindanna. Efnið er mér náttúrulega skilt, en mér fannst svo gaman að sjá hversu vel þeim tekst að segja þessa flóknu sögu á einfaldan og áhrifamikinn hátt. Leikhús er svo óskaplega skemmtilegt þegar svona vel er gert. Nú bíða eftir mér hrúgur af þvotti svo það er eins gott að byrja á þeirri fyrstu og sjá hversu langt ég kemst.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Halur hefir komið til nokkurra Evrópskra borga og eru þær allar keimlíkar í eðli sínu; bygginga- og mónumentahrúgur með söluvarningi og snæðingarstöðum og kaffihúsum sem reyndar geta verið ágæt ef maður þolir reyk. Vart má á milli sjá hvar maður er staddur hverju sinni. Ég minnist ferðar minnar til Vínar í fyrra sem ósköp venjulegrar ferðar þar sem það eina, sem ég man eftir þessa stundina var Sacher terta með kaffi sem ég snæddi á Hóteli Sacher sem er yfirmáta settlegt og túristalegt hótel í háum verðflokki þar góðborgarar Vínar sátu saman ásamt stöðluðum túristum; aðalóperan lokuð, en fór á fátækramannsóperu sem var svona la-la. Skemmtilegast var (nú man ég það!) að ganga með íslenskri konu um bakgarða Vínar, þá hélt ég að ég væri ekki ferðamaður og rakst meðal annars inní jarðarför kardínála sem drottnað hafði yfir sauðunum áratugum saman. Annars er bara að stilla þvottavélina á rétt hitastig og sjóða nærbuxur bóndans eftir Vínarbrauðið.
Skrifa ummæli