fimmtudagur, mars 17, 2005
Leyndarmálið
Það á að skíra hann Jóhannes Agnar Enemark Madsen til kristinnar trúar á sunnudaginn. Hann er stór og kraftmikill norrænn víkingur. Ég ætla að baka rúgbrauð, skinkuhorn og marengs fyrir veisluna, alvöru íslensk veisla skal það vera, nóg af mat og afgangar í viku hjá þeim Björgu og Bo. Það verða einhver ósköpin af Íslendingum í bænum og í veislunni, það gæti kannski farið vel á annan tuginn. Við eigum þessu ekki að venjast. Við þurfum væntanlega að passa okkur hvað við segjum og hvenær þegar við erum á rölti um bæinn. Eftir allan þennan tíma í útlöndum þá hættir manni til að tala íslensku á vitlausum stað og á vitlausum tíma og verða sér ævarandi til skammar. Við þurfum reyndar að vera afar varkár þá sjaldan sem við álpumst inní Mall of America, þar er alltaf fullt af Íslendingum. Þeir þekkjast á pokamagninu sem þeir burðast með. Í hvert sinn sem við förum inní eina af fimm Leyndarmáls búðunum (Victoria´s Secret) þá bregst það ekki að annað hvort eru Íslendingar þar eða að afgreiðslustúlkan þekkir eftirnafnið og segir undantekningalaust "there are a lot of Icelanders here today, they always shop soooooo much!" Ég forðast því Leyndarmálið í MoA. Oft og iðulega sitja nokkrir karlmenn á bekknum fyrir utan nærfatabúðina, hálfsofandi, og hafa greinilega lítinn áhuga á að fylgja spúsum sínum inní draumaveröldina. Þeir njóta þess væntanlega seinna en það er eitthvað svo dásamlega vandræðalegt að sjá karlmenn elta konur í Leyndarmálinu, þeir eru alltaf eitthvað hálfkindarlegir og vita ekki hvert skal líta og horfa því oft á tærnar á sér rjóðir í kinnum og skiptir þá litlu máli á hvaða aldri þeir eru. Ennþá verra er það þegar þeir eru einir að versla, þá er algjört bíó að fylgjast með, vandræðagangurinn er þvílíkur, enda eru þeir ekki þar til að kaupa full-size, hvít bómullarnærföt, heldur eitthvað mun efnisminna og meira spennandi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Já, það er örugglega frekar fyndið að fylgjast með landanum í verslunarferðum? Við erum alltaf að græða svo mikið, ég tala nú ekki um þegar gengi dollars er svo lágt.
En inn í "Leyndarmálið" færi minn maður aldrei, hvorki með mér né án!
Skrifa ummæli