miðvikudagur, mars 30, 2005

Verkvit

Það háttar þannig til hérna fyrir framan hús að það er ræsi undir innkeyrslunni. Þetta ágæta ræsi þjónar þeim tilgangi, eins og ræsa er siður, að taka afrennslið frá brekkunni hér fyrir ofan og flytja það án vandræða niður að læknum hér fyrir neðan okkur. Þetta ágæta ræsi stíflaðist í stórhríðinni miklu hér um daginn, fraus hreinlega fast, svo nú hefur myndast þessi líka tjörn fyrir sunnan innkeyrsluna. Á meðan ég var í burtu þá fylltist skurðurinn þannig að flæddi yfir innkeyrsluna og steinhleðslan mín og plönnturnar eru í hættu á að skolast í burtu í vorleysingunum mér til mikillar bölvunar. Þetta varð til þess að ég fór út í gær alvopnuð tólum og tækjum til að losa um stífluna. Með mér í för voru járnkall, skóflur, spaðar, sköfur og sjóðandi heitt vatn í könnum því ef vöðvaaflið hefði ekki dugað þá átti að nota eðlisfræðina og bræða klakafjandann í burtu. Við norðanvert ræsið var ennþá metersdjúpur snjór, þ.e. hálfur metri af snjó og hálfsmetra þykk klakahella undir. Ég byrjaði á því að moka snjónum ofan af og svo var þrautin þyngri að reyna að hitta á ræsið á réttum stað þvi allt umhverfis var undir klaka. Mér tókst nú að lokum að finna ræsið og þá var bara að brjóta, merja og lemja klakann þannig að á ynnist og afrennslið opnaðist. Eftir klukkutíma törn með verkfærunum þá var tekið til við bræðsluna en þar sem, eðli málsins samkvæmt, ræsið er háfgrafið og fullt af klaka þá er nú ekki vel gott að komst að klakanum sem innra er. Þá tók ég aftur til við að nota járnkallinn og komst einhverja sentimetra inná við. Ekkert gerðist. Ég lamdi járnkallinum hressilega inn þannig að hann festist og með "lagni" tókst mér að koma honum út aftur en þá læddist að mér sá grunur að ef mér tækist nú að opna fyrir gatið þá myndu allar flóðgáttir opnast og að ég myndi fljóta með niður að læk með klakahraungl sem lítt áreiðanlegan björgunarbát. Ég sá sjálfa mig fyrir mér baðandi út öllum öngum í leit að landföstu björgunartæki. Þetta fór meira og meira að líta út eins og sá sem sagar af trjágrein og situr á ytri endanum við verkið. Ég gekk því frá hálfkláruðu verki mér til mikillar armæðu, með lófana sundur rifna og blöðrur í öllum krikum.

Þegar ég vaknaði í morgun var mitt fyrsta verk að kíkja út til að sjá afraksturinn en ekkert hafði gerst, engar flóðgáttir opnast, og allt stíflað sem fyrr. Ég verð því að gera aðra atlögu í dag því það á vera þrumuveður seinnipartinn með tilheyrandi úrkomu.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Var "Terminator" ekki heima? Hvar ætti hann annars að vera en á slíkum stað þar sem venjulegur járnkarl dugar eigi! Annars er ánægjulegt að sjá nánast rétta notkun á orðinu metri og fallbeygingu þess, en orðin metri og lítri hafa íslenska beygingu, en flestir Íslendingar eru meira og minna hættir að fallbeygja. Ef þú ferð í Brynju og spyrð um einn lítra af ís, þá horfir unga afgreiðslustúlkan á þig og segir eða spyr: einn líter af ís meinarðu! Þá segi ég: einn lítra af ís og svona heldur þetta áfram. Höldum áfram baráttu okkar fyrir fallbeygingu orða og sleppum ekki sögnum.

Katrin Frimannsdottir sagði...

Talandi um fallbeygingu, mér þykir allra verst þegar mannanöfn eru ekki beygð, sérstaklega er þetta slæmt fyrir hann Jón Þór, því fæstir koma frá Jóni Þór heldur Jón Þóri.

Katrin Frimannsdottir sagði...

Hann terminator eini og sanni, sem þekktur var fyrir allt annað en ljúf handtök hér í den, hvað þá pempíuskap eins og fara úr betrifötunum til skítverka, gerði m.a. við karbúratorinn úr Willys jeppanum góða á eldhúsborðinu klæddur jakkafötum, er nú orðinn þannig að ef hann þarf að ganga í líkamleg átök þá eru settir upp hanskar og hlífðargleraugu, en ekki er nú samt farið í vinnuföt. Hann var í vinnunni í gær...hvar annarsstaðar....til níu í gærkveldi svo hann telst ekki til hjálparmanna á þessu heimili.