fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Islandskynning

Héðan er að fara hópur svæfingalækna til Íslands í sumar. Að mér forspurðri bauð maðurinn minn mig fram sem upplýsingafulltrúa Íslands á svæðinu og ég, eins og hlýðinni og undirgefinni eiginkonu sæmir, mætti á fund hjá þeim í hádeginu í dag. Þar sem engir tveir taka hádegismatar pásu á sama tíma þá var fólkið að koma og fara í hálfan annan tíma, en sem betur fer hafði ég ekki undirbúið formlega kynningu heldur bjóst við að þetta yrði svona almennt spjall, sem það og varð, aðallega vegna þess að þannig vildi ég hafa það. Ég byrjaði á því að skýra út fyrir þeim nafnavenjur okkar, og að venju þá er það eitt af því áhugaverðara, svo fór ég að lýsa veðrinu og hverju mætti búast við í júlí sem er aðallega rok, stundum rigning, stundum sól en oftast vindur. Einn af bestu kennurum sem ég hef unnið með um dagana lýsti veðri þannig fyrir mér að það væri alltaf gott veður þegar það er logn, og því er ég hjartanlega sammála þegar kemur að íslensku veðri. Hér gilda önnur lögmál, í sumarhitunum þá er voðalega gott að hafa vindinn annars verður kæfandi heitt, að sama skapi þá er vindurinn skelfilegur í vetrarhörkum. Þegar líða tók á kynninguna hjá mér þá fór fólk að breyta plönum um Íslandsferðina og nú voru heilu fjölskylduferðirnar komnar á áætlun. Það sem allir vildu þó fá að vita hvort í veröldinni væri ekki hægt að fá ódýrari gistingu en $400 á nóttina, verðið sem Hótel Nordika setur upp. Einn sagðist ekki hafa hugsað sér að kaupa hótel á meðan hann væri á Íslandi, hann vantaði bara gistingu. Ég reyndi mitt besta að skýra út að dollarinn væri mjög veikur og krónan sterk og allt það en það breytir því ekki að gistingin yrði fáránlega dýr og því þarf ég nú að finna íbúðir eða ódýrari gistingu fyrir eitthvað af þessu fólki. Allir voru afar spenntir fyrir bændagistingu, sérstaklega þau sem ætla útá land, svo nú er um að gera að leita upplýsinga og hjálpa mannskapnum....ekki má ég verða manninum mínum til skammar!

1 ummæli:

ærir sagði...

www.zarnik.is

Þetta er staður sem hægt er að mæla með. Svo eru ýmis góð b&b staðir eða gistiheimili í Reykjavik sem ég hef mælt með við kollega. T.d Baldursbrá á Laufásvegi og Krían á Suðurgötu. En það eru náttúrulega ekki staðlaðar keðjur.