þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Ur umferðinni

Ég hef verið að fylgjast örlítið með dæmalaust skemmtilegri umræðu í Noregi síðustu dagana, allavega er umræðan á vefsíðu Aftenposten, hvort hún er í samfélaginu veit ég ekki. Þeir vinir okkar Norðmenn þykja nefnilega vera lélegir bílstjórar þegar kemur að hringtorgum, aðallega vegna þess að þeir gefa ekki stefnuljós þegar keyra á útúr hringnum. Það má sekta hvern þann sem gerist sekur um þetta óhæfi heilar 2000 norskar krónur og þykir mér mikið, enda þegar við bjuggum í Noregi þá hefðu 2000 norskar krónur dugað fyrir mat í mánuð fyrir fimm manna fjölskylduna okkar. Hér í bæ er eitt hringtorg og ef Norðmenn þykja slappir í hringtorgaakstri þá eru Rochesterbúar sínu verri, þeir eiga það til að keyra vitlausan hring, líklegast vegna þess að það er styttra ef fara á þrjáfjórðu úr hringnum. Annars veit ég svo sem ekkert af hverju, við Karólína urðum bara vitni af svona akstri fyrir nokkru og veltum við því fyrir okkur lengi hvers vegna í veröldinni ökumaðurinn gerði þetta og komum upp með allra handa skýringar, sumar haldbærar, aðrar ekki, sumar fyndnar og aðrar ekki. Ég hafði aldrei á minni ævi keyrt í kringum hringtorg fyrr en ég flutti til höfuðborgarinnar úr höfuðstað norðurlands þar sem ekkert hringtorg var og að ég held að séu bara tvö núna, og flutti ég þá í íbúð við Hagatorg, sem er með stærri hringtorgum, og er rétt hjá hringtorginu við Þjóðminjasafnið, sem er eitt af minni hringtorgunum, en með ógnar umferð á. Það er þannig með stefnuljós og hringtorg, sérstaklega ef þau eru lítil, þ.e.a.s. hringtorgin, þá má ekki mikið fara úrskeiðis með tímasetningu stefnuljóssins til að það sé sett á annaðhvort of snemma eða of seint. Hvorugtveggja náttúrulega stór-hættulegt. Ég er reyndar sannfærð um það að Íslendingar flytja eingöngu inn bíla sem búið er að taka stefnuljósin úr, allavega eru stefnuljós eitt af því sem fólk er duglegt að spara, svo þá kemur þetta útá eitt, hugsanalestur er besta tækið til að forðast óhöpp í umferðinni. Það er reyndar voðalega erfitt fyrir mig þegar ég er heima á Íslandi því ég er ekki góð í hugsanalestri því ég hef ekkert þurft á þessari kunnáttu að halda síðan ég flutti af landi brott fyrir voðalega löngu síðan og því er ég alltaf hrædd um líf mitt í borgarumferðinni í henni Reykjavík þegar ég þarf að keyra þar. Ég held að Íslendingar ættu að taka Norðmenn sér til fyrirmyndar þegar kemur að sektum fyrir stefnuljósanotkun, og láta gróðann ganga í geirfulgssjóðinn, sá sjóður hlýtur að vera tómur og því nauðsynlegt að fjármagna hann.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Norðan heiða hefur hringtorgum fjölgað og þar er sérhver ökumaður með sínar eigin reglur innan og utan hringsins og þannig finnst mér það ætíð hafa verið þar eftir að ég flutti norður. Stefnuljós eru ágæt,en um þau gildir hið sama og torgin, hver og einn notar þau eftir hentugleika og alls endis óvíst hvort viðkomandi aki áfram eða taki sveigju í gagnstæða átt við stefnuljósið. Þannig er það nú norðan heiða oftast nær en sleppur yfirleitt fyrir horn vegna fárra ökutækja enn sem komið er.