Í dag er ósköp notalegt vetrarveður, rétt undir frostmarki, kyrrt og snjómugga. Ég kem til mað að eyða stórum hluta dagsins við saumavélina við kjólasaum, mér leiðist það nú ekki.
Í gær fórum við í dagsferð til Tvíborganna, stoppuðum í MoA (Mall of America) til að kíkja í Apple búðina. Það getur vel verið að hér á heimili sé kristin trú lítið ræktuð, eða önnur trúarbrögð ef útí það er farið, en það eru annarskonar trúarbrögð ræktuð og ein af þeim er tölvutrúarbrögð af eplakyni. Hér hefur verið Apple tölva á heimili síðan haustið 1984, ekki sú sama heldur einar 7 kynslóðir í viðbót við ipodda og önnur tæki. Haustið 1984 var verkfall BSRB, rétt fyrir verkfall komu tölvur í fyrsta sinn í grunnskóla þann í Reykjavík sem ég kenndi við. Ég var ein af kennurunum sem átti að sjá um þessar ágætu tölvur og þegar ljóst var að ekki tækist að semja við Albert þá fékk ég lánaða tölvu heim til að æfa mig betur á fyrirbærinu. Syni okkar, þá tæplega fjögurra ára, fannst þetta hið mesta galdratæki og eftir nokkra daga þá tilkynnti hann að hann þyrfti sko ekki að læra að skrifa því hann ætlaði bara að nota tölvu það sem eftir væri til þeirra verka. Við það hefur hann að mestu staðið, er núna með eina af epla gerð og aðra af hinni gerðinni, þessari sem ekki má nefna því hún er fulltrúi annarra trúarbragða, og er þess vegna ekki góð, ekki einu sinni boðleg.
mánudagur, janúar 31, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Ég man ennþá eftir þeim degi þegar Halli sýndi mér sinn fyrsta (eða var það sá annar?) Makka, sem var í stofunni hjá ykkur í Lundahverfinu hér á Akureyri, þetta er eins og gerst hefði í gær. Sjálfur keypti ég minn fyrsta Makka í kjölfarið og ekki þann síðasta. Það er sama hér og hjá ykkur, allir utan þjóðkirkjunnar, helmingur ófermdur og eplin eru ágæt trúarbrögð sem veita bara ánægju og mismuna ekki eftir kynhegðun svo eitt dæmi sé nefnt.
Þetta var fyrsti Makkinn en annað eplið
Skrifa ummæli