sunnudagur, janúar 16, 2005
Hitastig er afstætt fyrirbæri, sérstaklega hér á sléttunum þar sem árssveiflan getur verið allt að 80 gráðum. Í morgun var 24 stiga frost og fannst okkur kalt en ekkert sem ógnar okkur eða kemur í veg fyrir dags dagleg störf. Við förum reyndar ekki út að hlaupa og minn eini hjólar ekki í vinnuna, en ef ég væri t.d. ennþá að kenna á skíði þá myndi ég bara klæða mig aðeins betur og passa uppá að nemendurnir væru allir með húfur og vetlinga og rennt uppí háls, en á skíði myndum við fara. Þar sem ég er ekki skíðakennari lengur þá þarf ég náttúrulega ekkert að hugsa um þetta og allt eru þetta því akademískar vangaveltur. Ekki það, ég sakna skíðakennslunnar heil lifandis ósköp, því ég skíðaði hvern dag í þrjá mánuði á ári og það var ekki slæmt. Síðan þá hef ég orðið að kuldaskræfu og set fyrir mig að renna mér í brekkunum þegar það fer undir 15 frostgráðum, þá er svo skelfilega kalt að sitja í stólalyftunni. En aulagangur er það. Nú erum við mæðgurnar á leið í verlsunarleiðangur, ég hélt nú reyndar að fyrir jól hefði ég keypt allt það sem þyrfti á þetta heimili þangað til í vor en nú eru það nærföt og sokkar sem vantar....alltaf eitthvað!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Eins og fram hefur komið, þá náði þessi síða eyrum og augum gamals manns uppá Íslandi er Halur Húfubólguson heitir, sem aftur er fákunnandi í öllu sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. Hann sendir þó fyrir hvatningu frænda síns bögu þessa:
Til ykkar skal ég skjóta stöku,
skal ykkar leysa vanda.
Ef kólnar, þá skaltu baka böku,
Bjarnasyni handa.
Skrifa ummæli