Mikið vorkenni ég atvinnuíþróttafólki. Það er oftar en ekki farið með það eins og húsdýr, það gengur kaupum og sölum á milli liða til þess eins að nota það mesta og besta úr þeim þegar hentar en henda þeim svo út á guð og gaddinn þegar tómt er orðið á tankinum eða hann orðinn brotinn og beiglaður. Sjaldan fá þau að ákveða hvar þau búa og í þessu landi þá er það nú meiriháttar mál. Fæst þeirra þéna einhver lifandis ósköp, en það eru þessi fáu sem halda drauminum lifandi um frægð, frama og ríkidæmi í íþróttum. Ferlið frá barnaíþróttum til atvinnuíþrótta er langt og erfitt andlega og líkamlega og því hellast flestir úr lestinni á leiðinni. Ég er reyndar algjör íþróttabulla sem stundar flestar íþróttir af miklum móð á rauða sófanum mínum í stofunni þar sem íþróttafólk hefur gefið mér margar ánægjustundirnar og því er ég náttúrulega meðsek í vinsældum íþrótta þar sem ég telst til þess hóps fólks sem auglýsendur ná til öllum stundum. Keppnisíþróttir eru afar skemmtilegar, það er ótrúlega gaman að horfa á íþróttamenn sem eru bestir í sinni grein í sínu allra besta formi. Þar sem ég á tvær dætur sem stunda afreksíþróttir þá höfum við (eða öllu heldur þær) lagt okkar að mörkum að manna þessi 98% af íþróttamönnum sem enginn hefur heyrt um. Ég viðurkenni það fúslega að ég hef ótrúlega gaman af að horfa á þær æfa og keppa í þessum fjórum íþróttum sem þær stunda og legg allt til hliðar til að vera hjá þeim þegar þær keppa. Íþróttirnar hafa gefið mér og þeim mikið, allt frá vinum til líkamsræktar til skipulags lífsstíls. Þær gáfu mér tækifæri í lífinu sem ég hefði aldrei fengið annars, eins og að spila golf í miðnætursól og renna mér á skíðum á vetrarkvöldi með norðuljósin ein sem lýsingu. En það er alveg jafn mikilvægt að æfa vel eins og að vita hvenær rétt sé að hætta íþróttaiðkun með afrekskeppni í huga. Þessi rétti tími er misjafn frá einum til annars, flest atvinnufólk endist hámark 10 ár, en við hin eigum misgott með að taka þessa ákvörðun, eins og best sést á þátttöku fólks í öldunga þetta og öldunga hitt. Ég vona að þegar þær taka þá ákvörðun að hætta að keppa þá verður það vegna þess að það er annað mikilvægara í lífinu sem tekið hefur við en ekki vegna meiðsla eða leiða. Vona svo sannarlega að þær haldi áfram eftir það að halda sér við líkamlega með það eitt að markmiði að líða vel. Ég veit að ég kem til með sakna fótboltaleikja, körfuboltaleikja, róðrarkeppni, og frjálsíþróttamóta þegar stelpurnar ákveða að hætta, en það veit sá sem allt veit að ekki vildi ég mínum versta óvini þau örlög að verða atvinnuíþróttamaður og það vona ég að þær verði þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa gleði og ánægju af að stunda íþróttirnar sínar fram að síðustu keppni.
Þegar ég las yfir þessa rullu mína þá sá ég að ég fer úr einu í annað, rugla saman keppnisíþróttum og atvinnuíþróttum og annað þar fram eftir götunum en ég ákvað að setja þetta á síðuna mína samt!
miðvikudagur, janúar 19, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Það er aldrei of seint að byrja né hætta íþróttum (hljómar undarlega). Hann Jói í Keflavíkinni sem var að æfa með föður mínum í óld bójs frjálsum á sínum tíma æfði fram undir það síðasta; hann fannst látinn heima með spjótið í hendinni. Glaður og reifur "skyli" gumna hver uns sinn bíður bana. Þetta með ruglið er aukaatriði.
Skrifaði Halur milli speglana.
Ég á nú eftir að stunda íþróttir fram í andlátið, en keppa ætla ég ekki að gera aftur, það fer svo illa með sjálfstraustið sjáðu til!
Skrifa ummæli