föstudagur, febrúar 10, 2006
Draumar litillar stelpu
Ég var úti að moka frá í gær þegar flugvél fór yfir. Ekki tiltökumál í sjálfu sér en hljóðin minntu mig á fokker hljóð í Eyjafirði og eins og alltaf þegar ég heyri þau hljóð þá flýgur hugurinn heim til Akureyrar, í bakgarðinn í Birkilundinum þar sem ég ligg í grasinu og horfi uppí himininn sem er hvít-röndóttur eftir þoturnar á leið vestur og austur um haf og hlusta á hljóðin í kaffivélinni sem er að búa sig til lendingar. Þegar ég var lítil stelpa á Akureyri þá dreymdi mig um að komast í burtu, ferðast um heiminn, fljúga útum allt, læra fullt af tungumálum, sjá alla kima heimsins....en í draumaheiminum þá kom ég alltaf aftur heim til Akureyrar. Ég man afskaplega vel þegar við fluttum frá Akureyri í síðasta sinn. Það var 28. maí 1987. Við flugum suður með Bjarna 6 ára og Kristínu 17 mánaða og í vélinni var Erna Gunnars, gömul vinkona og skólasystir. Við vorum að spjalla og ég var að segja henni frá hvað við værum að halda útí -sem ég vissi náttúrulega ekkert um annað en að við værum að flytja til Voss- og hún segir sem svo að þetta verði bara gaman það sé svo gott að koma sér í burtu um tíma. Ég játti því en sagði sem var að óvissan um flutning aftur heim þætti mér erfið en ég vissi það eitt þó að heim myndi ég flytja eins fljótt og ég gæti. Þetta samtal hef ég oft rifjað upp með sjálfri mér því það segir svo vel hvað allt er afstætt. Að flytja heim eins fljótt og hægt er er enn á áætlun þótt bráðum séu 19 ár frá þessu samtali. Draumar litlu stelpunnar um að búa víða, tala mörg tungumál og ferðast útum allan heim hafa ræst en enn er ég nú samt ekki flutt heim....sem má náttúrulega deila um því við búum með annan fótinn heima, við eigum allavega hús, bíl og sumarbústað heima. En heim flyt ég aftur.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Mér finnst ég skilja einum of vel hvað þú átt við, jafnvel þótt minn heimur hafi að miklu leyti takmarkast við Noreg. Ekki grunaði mig haustið 1980, þegar ég hélt til náms í Noregi, að ég yrði hér aldarfjórðungi síðar!
Þrátt fyrir að útlegðin sé val af okkar hendi, en ekki þvinguð eins og hjá mörgum vesturfaranna hinum fyrstu, þá er skrýtið að velta fyrir sér hvað rætur manns eru sterkar og hljóð, lykt, bragð og birta koma huganum í annan og fyrri heim.
Skrifa ummæli