miðvikudagur, mars 12, 2008
Við eigum tólf ára gamlan VW Golf hér á Íslandi og höfum átt þennan ágæta bíl í ein 7 ár. Hann hefur verið notaður af mörgum og farið í gegnum eitt og annað blessaður en alltaf verið vandanum vaxinn. Hann fer í gang í hvert sinn sem við komum til landsins, það þarf jú stundum að jafnvægisstilla dekkin eftir margra mánaða setu í bílskúrnum hérna vesturfrá en það er nú bara venjuleg afleiðing af lífi eigendanna. Í gær fór ég í skólaheimsókn um morguninn og þurfti svo að skjótast í IKEA á leiðinni heim enda keyrði ég framhjá svo það var bara að skjótast inn. Sem ég og gerði, var voða fljót, kannski 15 mínútur, en þegar ég ætlaði að ræsa minn trausta vin þá gerðist bara ekki neitt, ekkert hljóð, engin ljós, allt dautt. Nú voru góð ráð dýr, ég uppábúin í business föt og háa hæla og bíllinn bilaður og kall minn bílamaðurinn í annarri heimsálfu. Ég hringdi því í bróður minn fyrir norðan sem allt veit um bíla og hann sagði mér að opna húddið og kíkja á rafgeyminn og athuga hvort allar leiðslur og snúrur væru fastar og þéttar. Þetta gerði ég og fannst að allt væri eins og það átti að vera. Hann gaf mér svo upp símanúmerið hjá Vöku og Króki og ég hringdi í Krók og átti bíll frá þeim að vera kominn eftir 45-60 mínútur. Þá tölti ég mér inní IKEA aftur og fékk mér að borða og var nú útlit fyrir að stutta IKEA ferðin yrði mun lengri en efni stóðu til. Á meðan ég var að borða hringdi minn heittelskaði venjulega morgunsímtalið og þá varð ég að segja honum frá vandræðum mínum því ég var farin að sjá fyrir mér bílakaup og hvað annað þessum vandræðum gætu fylgt. Hann setti sig náttúrulega í gömlu bílaviðgerða stellingarnar og fór að greina vandræðin og komst að sömu niðurstöðu og bróðir minn að þetta hlyti að hafa eitthvað með rafgeyminn að gera. Ég sagði sem var að ég hefði engin tæki til að athuga málið og þekkti engan í nálægðinni og ætlaði því að bíða eftir Króki. Við fórum svo að velta fyrir okkur afleiðingunum ef þetta væri mikil viðgerð og dýr og hvort bíllinn væri þess virði að fara útí mikinn viðgerðakostnað. Hvorugt okkar hefur mikinn áhuga á bílakaupum í augnablikinu. Við vitum að við þurfum að endurnýja greyið innan ekki svo mjög langs tíma því bíllinn endist ekki að eilífu en hann er engum virði nema okkur, verðlaus gamall bíll sem ekkert fæst fyrir en hefur hingað til farið í gang og er í ágætu lagi. Svo er krónan óstöðug, fjármálamarkaðir í stórsjó og við höfum ekki mikinn áhuga á að fjárfesta í bíl við þessar aðstæður en ef neyðin hefði kallað á það þá var ekki um neitt að velja. Eftir klukkutíma bið þá hringdi ég aftur í Krók því enginn kom bíllinn og þá var mér sagt að ég þyrfti að bíða eitthvað lengur því árekstrar ganga fyrir svo smámálum. Svo leið og beið og ég búin að gera alla þá vinnu á tölvuna sem ég gat, tala við Halla mörgum sinnum á milli funda hjá honum og tala við alla krakkana mína, og kemur þá ekki blessaður kallinn. Hann ætlaði nú bara að skúbba bílnum uppá pallinn hjá sér en ég spurði hann hjáróma hvort hann gæti athugað hvort það væri nóg að gefa mér straum sem og þessi elska gerði og bíllinn rauk í gang. Þá voru sumsé snúrurnar við annan pólinn laflausar og hún ég hélt að þetta ætti að vera svona. Hvað veit ég...ekki neitt um bíla svo mikið er víst. Hann herti svo rær og skrúfur og þar með bílaviðgerð lokið! Og eftir rúmlega tveggja klukkutíma bið þá keyrði ég heim alsæl á gamla græna og þarf ekki að láta stórar fjárfúlgur í bílaviðgerðir og ekki þarf ég að standa í bílakaupum heldur svo allt fór þetta vel nema að egóið var dulítið hruflað á eftir, en það grær.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Ef upp koma vandræði á ný, sem er sjaldgæft með VW þá mæli ég með BILSON verkstæðinu í Ármúla.
kv
Einn sem hefur átt VW og það fleiri en einn.
Það var annað sem við vorum að velta fyrir okkur, hvaða verkstæði áttum við að senda hann á. Hekla er eini staðurinn sem við vitum um en höfum lúmskan grun um að þeir séu of dýrir, sértaklega fyrir svona gamlan einstakling. Gott að vita af BILSON, ef til kemur.
Skrifa ummæli